Hinn tólf ára gamli Bandaríkjamaður, Abhimanyu Mishra, varð í dag yngsti skákmaður sögunnar til þess að tryggja sér stórmeistaratitil. Það afrekaði Mishra eftir sigur á indverska stórmeistaranum Leon Luke Mendonca í næstsíðustu umferð alþjóðlegs skákmóts í Ungverjalandi, Vezerkepzo GM. Með sigrinum tryggði Mishra sér sinn þriðja og síðasta stórmeistaraáfanga, sem er í raun afburðaárangur á skákmóti gegn nægilega sterkum andstæðingum, sem og að hann hefur rofið 2500 stiga múrinn á alþjóðlegum skákstigum. Þannig hefur Mishra uppfyllt allar kröfur FIDE – alþjóða skáksambandsins til að hljóta titilinn eftirsótta.
Mishra er frá New Jersey-fylki í Bandaríkjunum en hélt í víking til Ungverjalandsum mitt ár þar sem fleiri heppileg mót eru í boði til að ná stórmeistaraáföngum. Þeim náði hann öllum á undraverðum hraða. Fyrsti áfanginn kom í hús í apríl mánuði og rúmum tveimur mánuðum síðar höfðu tveir bæst við.
Bandaríska undrabarnið varð þar með 12 ára og fimm mánaða gamall þegar hann tryggði sér titilinn en það er tveimur mánuðum skemur en fyrra met Sergey Karjakin frá árinu 2002. Karjakin skipaði sér síðan fljótt í hóp allra bestu skákmanna heims í kjölfarið og náði síðan hápunktinum þegar hann tefldi heimsmeistaraeinvígi gegn Magnusi Carlsen árið 2016 sem hann tapaði naumlega í bráðabana.
Magnus Carlsen, sem er talinn einn allra besti skákmaður sögunnar, varð stórmeistari aðeins á eftir þeim Mishra og Karjakin eða þegar hann var 13 ára og 148 daga gamall.