Karlmaður var í maí ákærður fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn ungri stúlku er hann var gestkomandi á heimili hennar, en maðurinn er vinur fjölskyldu stúlkunnar.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa í að minnsta kosti í 5-10 skipti nýtt sér yfirburði og stöðu sína sem fjölskylduvinur til að brjóta á stúlkunni er hún var á aldrinum 7-8 ára. Samkvæmt ákæru var manninum gert að sök að hafa áreitt stúlkuna kynferðislega er hann var gestkomandi á heimili hennar og haft við hana önnur kynferðisbrot en samræði, strokið henni ítrekað utan og innan klæða á kynfærum, rassi og baki, látið hana snerta getnaðarlim sinn og fróað sjálfum sér á meðan.
Eins var manninum gert að sök að hafa skoðað myndir sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt á netinu eða með annari upplýsinga- eða fjarskiptatækni en í ákæru er greint frá því að á fartölvu hans, sem lögregla lagði hald á árið 2020 hafi fundist 21 slík ljósmynd í eyddum skrám.
Málið hefur verið tekið fyrir hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra og féll dómur fyrr í dag. Samkvæmt símtali blaðamanns við Héraðsdóm Norðurlands eystra er þó ekki hægt að greina frá niðurstöðu dómsins fyrr en á morgun. Um lokað þinghald var að ræða.