Engar eignir fundust í þrotabúi Grundir ehf. sem var tekið til gjaldþrotaskipta þann 10. júní í fyrra. Lýstar kröfur í búið voru rúmlega 898 milljónir króna.
Grundir ehf. var í eigu Rúnars Laufars Ólafssonar og var félagið rekstrarfélag Green Motion-bílaleigunnar hérlendis.
Í frétt Morgunblaðsins í febrúar 2019 var fjallað um að nokkur fjöldi bifreiða sem verið höfðu í eigu fyrirtækisins voru með rangt skráða kílómetrastöðu.
Var Rúnar spurður hreint út hvort að bílaleigan hefði lækkað kílómetrastöðu bifreiðanna fyrir sölu sagði Rúnar.
„Ég ætla svo sem ekkert að tjá mig neitt frekar um það. Við þurfum bara að skoða hvert mál fyrir sig og hvað er að gerast með hvert mál fyrir sig. Alla vega, það sem að mér finnst mikilvægast að komi fram og mér finnst mikilvægast í málinu er að bílarnir voru ekki seldir með einhverjum sviksamlegum hætti, gagnvart kúnnum sem að keyptu þá.“
Þá fjallaði DV síðar á sama ári um þær ásakanir erlendra ferðamanna að bílaleigan viðhafi sviksamlega viðskiptahætti með því að leggja hart að viðskiptavinum að kaupa kostnaðarsama tryggingu frá Green Motion, án tillits til ferðatrygginga viðkomandi.