fbpx
Mánudagur 04.ágúst 2025
Fréttir

Magnþrungið andrúmsloft við þingfestingu Rauðagerðismálsins – „Er enginn fangavörður á Hólmsheiði?“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 25. maí 2021 10:02

Sakborningurinn Murat við hlið verjanda síns. Mynd: Ernir Eyjólfsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Angjelin Sterkhaj, maðurinn sem talinn er hafa skotið Armando Bequiri til bana þann 13. febrúar síðastliðinn, er eini fjögurra sakborninga í málinu sem játar sök. Eins og DV greindi frá því í gær telur ákæruvaldið að fjórar manneskjur hafi þaulskipulagt morðið á Armando.

Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Magnþrungið andrúmsloft var í dómsalnum þar sem fjöldi blaðamanna var á vettvangi og ljósmyndarar mynduðu í gríð og erg áður en þinghaldið hófst. Aðeins einn sakborningur var í salnum en þrír gáfu yfirlýsingu með öðrum hætti.

Þau Murat Selivrada, Claudia Sofia Soelho Carvalho og Shpetim Querimi neita öll sök í málinu. Í ákæru er því lýst hvernig þau eiga að hafa, hvert á sinn hátt, aðstoðað Angjelin við morðið. Angjelin játaði sök en tók fram að hann hefði verið einn að verki. Shpetim er sagður hafa verið samferða Angjelin í bíl að Rauðagerði og aðstoðað hann við að sitja fyrir Armando. Þeir eru síðan sagðir hafa farið saman í bíl til Skagafjarðar eftir morðið, með viðkomu í Kollafirði þar sem skotvopninu var fleygt í sjóinn.

Tveir sakborningar gáfu sína yfirlýsingu í gegnum fjarfundabúnað frá fangelsinu á Hólmsheiði, þeir Angjelin og Shpetim. Murat var viðstaddur þingfestingun og gaf sína yfirlýsingu í réttarsalnum. Hann er rúmlega þrítugur, stuttkipptur, vel klæddur og snyrtilegur. Yfirbragð hans í réttarsalnum var hófstillt og yfirvegað. Mynd af Murat í réttarsalnum fylgir fréttinni. Murat er gefið að sök að hafa leiðbeint Claudiu um að fylgjast með tveimur bílum í eigu Armandos að Rauðarárstíg og gera viðvart þegar hann æki öðrum þeirra af stað.

Claudia Sofia Soelho Carvalho sendi skriflega yfirlýsingu til réttarins þar sem hún neitar sök. Hún er sögð hafa fylgst með tveimur bílum í eigu Armandos við Rauðarárstíg og gert Angjelin viðvart þegar Armando ók öðrum þeirra af stað áleiðis í Rauðagerði.

Töluvert gekk á þar til tókst að koma yfirlýsingum þeirra Angjelins og Shpetim til skila í gegnum fjarfundabúnað og langur tími leið þar til tókst að koma á netsambandi við Hólmsheiði. Það var síðan ekki til að einfalda málið að túlkur sakborninganna er í sóttkví og var í sambandi frá þriðja staðnum. Loks tókst þó að ná sambandi við Hólmsheiði og gaf Shpetim yfirlýsingu á undan. Hann neitaði sök og sagðist ekkert hafa vitað um málið. Spheptim virðist lágvaxinn, hann er þéttvaxinn og þunnhærður, 42 ára gamall.

Þegar beðið var um að Angjelin settist í sæti í mynd og gæfi sína yfirlýsingu gekk það ekki eftir. Spheptim var beðinn um að kalla á hann en hann sagði að hann væri ekki þarna. Þá var dómaranum, Guðjóni St. Marteinssyni, nóg boðið, enda hafði gengið mjög brösuglega að sækja yfirlýsingar sakborninganna út af tæknivandamálum, og sagði Guðjón: „Er enginn fangavörður á Hólmsheiði?“

Stuttu síðar birtist þó Angjelin, settist í sæti við hliðina á Shpetim og gaf sína yfirlýsingu. Angjelin játar sök en segist hafa verið einn að verki.

Aðalmeðferð málsins var ákveðin 13. september næstkomandi. Hennar verður beðið í ofvæni enda er enn að mestu á huldu hvers vegna Armando var myrtur.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tókust á við áskoranir þegar versta veðrið gekk yfir Vestmannaeyjar í nótt – Hætt við brennuna af öryggisástæðum

Tókust á við áskoranir þegar versta veðrið gekk yfir Vestmannaeyjar í nótt – Hætt við brennuna af öryggisástæðum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Höfðu bókstaflega hendur í hári morðingja – Handtekinn í klippingu fyrir hrottafengin morð sem vöktu þjóðarathygli

Höfðu bókstaflega hendur í hári morðingja – Handtekinn í klippingu fyrir hrottafengin morð sem vöktu þjóðarathygli
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Karlmaður og kona sakfelld: Fengu 6,3 milljónir inn á reikning fyrir mistök og skiluðu ekki fénu

Karlmaður og kona sakfelld: Fengu 6,3 milljónir inn á reikning fyrir mistök og skiluðu ekki fénu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Eru Bandaríkin að missa þolinmæðina gagnvart Ísrael?

Eru Bandaríkin að missa þolinmæðina gagnvart Ísrael?