Franskur áfrýjunardómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið TUV Rheinland beri skaðabótaskyldu í tilfelli kvenna sem fengu svokallaða PIP brjóstafyllingar, en 80 prósent púðanna láku eða eyðilögðust innvortist.
Fyrirtækið Poly Implant Prothése (PIP) var stofnað árið 1991 af Frakkanum Jean-Claude Mas. Árið 2001 ákvað Jean-Claude að gera vörur sínar, brjóstafyllingar, ódýrari í framleiðslu meðal annars með því að fylla þá af iðnaðarsílikoni sem aðallega er ætlað til raftækjaframleiðslu.
Árið 2009 fóru kvartanir og lögsóknir að berast vegna skaðlegra brjóstapúða sem láku og árið 2010 varð PIP gjaldþrota og forstjórinn hlaut fjögurra ára fangelsisdóm.
TUV Rheinland er þýskt gæðaeftirlitsfyrirtæki og gæðavottaði PIP-púðana á sínum tíma. Tugir þúsunda kvenna um allan heim, meðal annars á Íslandi, hafa staðið í málaferlum við fyrirtækið fyrir að votta vöru sem er skaðleg heilsunni.
Meðal kærenda vegna brjóstafyllinganna eru rúmlega tvö hundruð íslenskar konur, lögmaður þeirr er Saga Ýrr Jónsdóttir og segir niðurstöðuna í Frakklandi áfangasigur fyrir íslensku konurnar þó að enn eigi eftir að fella endanlegan dóm í þeirra máli.
Ekki er komið á hreint hversu háar skaðabæturnar verða en samtökin PIPA (Samtök þolenda PIP brjóstafyllinga) segja að farið verði fram á nokkrar milljónir fyrir hvern þolanda.
„Áfrýjunardómstóll í Frakklandi sýknaði TUV Rheinland á sínum tíma af skaðabótaskyldu vegna PIP brjóstafyllinga. Þann 10. október 2018 vannst sá áfangasigur í hópmálsókn nr. 1 í PIP málinu svokallaða að Hæstiréttur Frakklands (Cour de cassation) ógilti þá ákvörðun og sendi málið aftur til dómsmeðferðar hjá öðrum áfrýjunardómstól.
Fyrir valinu varð áfrýjunardómstóllinn í París og hafa þeir nú kveðið upp dóm þess efnis að TUV Rheinland sé skaðabótaskylt. Um mikilvægan áfangasigur er að ræða en þó verður að telja allar líkur á að TUV Rheinland muni áfrýja dómnum til Hæstaréttar Frakklands sem kveður þá upp endanlega niðurstöðu.
Þrátt fyrir að íslenskar konur séu hluti af hópmálsókn nr. 2 þá varðar þessi áfangasigur þær að sjálfsögðu. Það lítur því loks út fyrir að það fari að styttast í endanlega niðurstöðu í þessu máli.“