fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Hlaðvarpskóngur Íslands: Eftirminnilegustu viðmælendurnir – „Mér þykir mjög vænt um viðtalið sem ég tók við Jónínu Ben“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 28. mars 2021 20:00

Sölvi Tryggvason. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sölvi Tryggva hefur fest sig rækilega í sessi í eyrum landsmanna sem vinsælasti hlaðvarpari landsins. Helsta lærdóminn segir hann vera að allir séu áhugaverðir og hafi sögu að segja.

Fjölmiðlamaðurinn og rithöfundurinn Sölvi Tryggvason kom, sá og sigraði hlaðvarpsheiminn hérlendis á örfáum mánuðum. Fyrir rúmlega níu mánuðum stofnaði hann Podcast með Sölva Tryggva. Síðan þá hefur hann gefið út rúmlega níutíu þætti sem allir hafa ratað á helstu vinsældalista hlaðvarps á Íslandi.

Hugmyndin vaknaði þó mikið fyrr í kollinum hjá Sölva en hann beið með að framkvæma hana vegna anna. Í byrjun árs 2020 var planið að skrifa nýja bók, en lífið fór með hann aðra leið.

„Ég var kominn með þessa hugmynd í magann fyrri hluta 2019. En svo var ég í öðrum verkefnum. Þetta var alltaf á bak við eyrað en svo var ég allt í einu kominn að punktinum að ég fann að ég vildi keyra á þetta. Í mars í fyrra ætlaði ég að skrifa bók. Ég var í París að heimsækja systur mína og ætlaði að ferðast eitthvað lengra og sökkva mér í skrif, en ég sneri aftur til Íslands.“

Vegna kórónaveirufaraldursins sem var að byrja að geisa um heim allan kom Sölvi aftur til landsins og þá var ekki annað í stöðunni en að byrja með hlaðvarpið. „Ég ákvað að fara með fullum krafti í það og fyrsti þátturinn fór í loftið í júní.“

Hafði ekki hugmynd um viðbrögðin

Þættirnir hafa notið gífurlegra vinsælda og er óhætt að segja að Sölvi sé með einn vinsælasta hlaðvarpsþátt landsins, ef ekki vinsælasta, um þessar mundir.

Sölvi viðurkennir að viðbrögðin hafi komið honum á óvart. „Þegar maður fer út í hlutina þá er erfitt að útskýra, maður býst ekki við neinu. Ég var meira að hugsa að þegar ég geri þetta þá langar mig að gera þetta af fullum krafti og mjög vel, og stimpla þetta rosalega vel inn. En maður veit aldrei fyrir fram, maður hefur ekki hugmynd um hvernig viðbrögðin verða. Það eina sem ég veit að þau hafa verið miklu miklu meiri en ég hefði nokkurn tímann getað ímyndað mér,“ segir hann.

Sölvi Tryggvason. Mynd/Sigtryggur Ari

Tekjur

Hlaðvarpsheimurinn er mörgum framandi, rétt eins og heimur áhrifavalda og annarra sem afla sér tekna í gegnum „óhefðbundnar“ leiðir. Enginn atvinnurekandi leggur pening inn á Sölva við hver mánaðamót gegn því að hann mæti frá níu til fimm og taki viðtöl. Hann þarf að treysta á samstarf við fyrirtæki og styrktaraðila.

„Það geta verið tekjur í þessu, en þá þarf maður líka að leggja mikla vinnu í þetta. Ég var alveg snarlaunalaus, bara núll krónur, fyrstu þrjá mánuðina, þó ég hafi verið að vinna við þetta allavega hundrað prósent. En ég var búinn að vera í öðrum verkefnum sem höfðu gengið vel svo ég gat verið launalaus yfir þennan tíma. En við getum orðað þetta þannig að tekjurnar koma ekki á silfurfati,“ segir Sölvi.

Þrátt fyrir að hlaðvarpsþáttur Sölva sé trekk í trekk á vinsældalista streymisveitna þá er lítið sem ekkert úr streymisveitunum að hafa. „Tónlistarmenn hafa mikið kvartað undan því hvað Spotify fer illa með þá, það er enn verr farið með hlaðvarpara,“ segir Sölvi og bætir við að hann sé rosalega þakklátur öllum sínum samstarfs- og styrktaraðilum.

Góð ráð fyrir framtíðarhlaðvarpara

Undanfarin ár hefur hlaðvarpsheimurinn á Íslandi sprungið og eru til tugir, ef ekki hundruð, íslenskra hlaðvarpa. Ráð Sölva til þeirra sem langar að byrja með hlaðvarp er ekki flókið, það er einfaldlega að hafa ástríðu fyrir því sem þú ert að gera.

„Það eru rosalega margir byrjaðir með hlaðvarp og það er mjög gaman að sjá hvað flóran er orðin fjölbreytt. Ég myndi aðallega bara segja að maður sé að gera eitthvað sem maður hefur gaman af. Og það þurfa ekki allir að vera að gera það sem ég er að gera. Ég er kannski frekar „mainstream“. Það er líka mikið gildi í hlaðvörpum sem eru sérhæfðari en mitt. Hlaðvarp um fjallgöngur, hlaðvarp um mótorkross, eitthvað sem þú hefur áhuga á. Aðalatriðið er að hafa gaman af þessu. Síðan náttúrulega líka að sumir eru kannski meira að hugsa að þá langi að vera með hlaðvarp af því þá langar endrum og sinnum að taka spjall og útvarpa því út og taka viðtöl eða eitthvað. Það þurfa ekki allir að leggja á sig þessa vinnu sem ég er að leggja á mig, það þurfa ekki allir að gefa út tvö hlaðvörp í viku,“ segir hann og bætir við: „Annars er það líka bara að leggja af stað, prófa þetta.“

Eftirminnilegir og draumaviðmælendur

Eftir yfir níutíu viðtöl hlýtur eitthvert þeirra að standa upp úr. Aðspurður hvað hafi verið eftirminnilegasta viðtalið nefnir Sölvi nokkra viðmælendur.

„Það er rosalega erfitt fyrir mig að velja vegna þess að ég er skotinn í svo mörgum viðtölum á ólíkan hátt. Mér fannst mjög gaman að ná Kára Stefánssyni í fyrsta þáttinn minn. Mér fannst skemmtilegt að byrja að fá að taka viðtal við hann,“ segir hann.

„Svo þykir mér mjög vænt um viðtalið sem ég tók við Jónínu Ben, því hún féll frá svo skömmu eftir að það fór í loftið. Mér fannst líka í viðtalinu skína í gegn hlið á henni sem fólk hafði kannski ekki séð áður. Síðan eru viðtölin svo ólík. Ég hafði mjög gaman af því að tala við Mikael Torfason því við vorum að tala um fjölmiðla og náðum mjög góðu flæði í því. Ég hafði aldrei tekið viðtal við Ólaf Darra og mér fannst alveg frábært að hitta hann. Ég gæti haldið endalaust áfram.“

Þegar kemur að því að nefna draumaviðmælendur nefnir Sölvi nokkra aðila. „Kannski fólk sem er ekki mikið að veita viðtöl. Ég myndi hafa rosalega gaman af því að taka viðtal við Björk, Björgólf Thor og Vigdísi Finnbogadóttur. Davíð Oddsson líka. Það eru alveg þó nokkrir sem eru á þeim lista,“ segir hann.

Allir eru áhugaverðir

Undanfarna níu mánuði hefur Sölvi lært margt og mikið af viðmælendum sínum. En mesta lærdóminn segir hann vera að allir séu áhugaverðir.

„Ég fæ oft að heyra: „Ég sé manneskjuna sem þú talaðir við í öðru ljósi eftir að hafa séð viðtalið.“ Og mér þykir alltaf jafn vænt um að heyra það. Mér finnst það vera stóri lærdómurinn, að allir hafa sögu að segja og mjög oft býr maður sér til einhverjar myndir af fólki, sem maður þekkir ekki. Maður sér kannski bara stutt viðtöl við það og þá er maður oft með skakka mynd af því. Lærdómurinn minn er einmitt bara að allir eru áhugaverðir,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Tók mynd af sér með nýfæddum syninum en það var mamman í bakgrunninum sem stal senunni

Tók mynd af sér með nýfæddum syninum en það var mamman í bakgrunninum sem stal senunni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun