fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Flokkakerfið skattgreiðendum dýrkeypt

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 6. desember 2020 18:00

MYND/ANTON BRINK

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Beinn ríkisstyrkur til stjórnmálaflokka mun nema 2,8 milljörðum á þessu kjörtímabili. Félagslega hefur flokkunum hnignað verulega.

„Stjórnmálaflokkarnir á Alþingi eru allir sammála um eitt mál, sem er sívaxandi framlög úr ríkissjóði til stjórnmálaflokkanna óháð stöðu ríkissjóðs á hverjum tíma.“ Þannig komst Gunnar Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri og alþingismaður Sjálfstæðisflokks, að orði í grein í Morgunblaðinu á laugardaginn var. Þar vísar hann til þess að flokkarnir hafa fyrir löngu sammælst um að láta skattgreiðendur standa straum af kostnaði við rekstur þeirra og samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir 728,2 milljónum króna til stjórnmálaflokkanna. Í lok kjörtímabilsins verður ríkisstyrkurinn þá kominn upp í 2,8 milljarða króna frá kosningum 2017.

Samhliða síhækkandi ríkisstyrkjum til flokkanna hefur félagsstarfi þeirra hnignað mjög. Ef til vill hefur um of verið einblínt í umræðu um þessi mál á hið fjárhagslega framlag en framlag flokksmanna í formi þátttöku í stefnumótun og hugmyndafræðilegri vinnu er í reynd mun mikilvægara.

„Aðstoðarmenn á hverjum fingri“

Í áðurnefndri grein Gunnars Birgissonar segir hann starf þingmanna orðið að þægilegri og vel launaðri innivinnu eins og hann orðar það „ásamt upphitaðri skrifstofu með aðstoðarmenn á hverjum fingri“. Alls eru pólitískir aðstoðarmenn þingmanna orðnir 28 talsins en þeim hefur fjölgað hratt á síðustu árum.

Flokkur fólksins á met í fjölda aðstoðarmanna per þingmenn en pólitískir aðstoðarmenn hans eru þrír á sama tíma og þingmennirnir eru aðeins tveir. En ekki er nóg með að þingmenn hafi sífellt fleiri pólitíska aðstoðarmenn. Sérhver ráðherra er kominn með tvo aðstoðarmenn og í forsætisráðuneytinu hjá Katrínu Jakobsdóttur eru að auki starfandi þrír „aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar“. Þessir fimm pólitísku aðstoðarmenn í kringum Katrínu eru allir konur svo ekki er gætt að kynjajafnvægi þar þó svo að einn aðstoðarmaðurinn eigi sérstaklega að hafa jafnréttismál á sinni könnu.

Gagnrýni á formanninn

Nærri þrjú hundruð nefndir hafa verið settar á laggirnar á þessu kjörtímabili sem Gunnar telur til marks um ákvarðanafælni stjórnmálamanna. Afleiðingin sé sú að embættismennirnir ráði för. Gunnar skrifar: „Ég sæi til dæmis fyrir mér, sem góða tilhögun, að fjármálaráðherrann yrði ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu …“

Hér birtist allnokkur gagnrýni Gunnars á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, en mikil óánægja er meðal þungavigtarmanna í flokknum með að Gunnar skyldi ekki hafa verið skipaður stjórnarformaður Betri samgangna sem er félag ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Í samtölum hafa ýmsir þessara manna bent á að að tæplega hafi nokkur Sjálfstæðismaður meiri reynslu í verklegum framkvæmdum en Gunnar Birgisson. Í stað Gunnars varð Árni M. Mathiesen, dýralæknir og fyrrverandi fjármálaráðherra, fyrir valinu, en gárungarnir segja það allt í stíl enda séu hvort tveggja samgönguráðherra og vegamálastjóri dýralæknar. Gunnar er aftur á móti doktor í jarðvegsverkfræði auk þess að hafa rekið verktakafyrirtæki um árabil og staðið að uppbyggingu nokkurra stærstu íbúðahverfa höfuðborgarsvæðisins.

Samdauna embættismannakerfinu

Grein Gunnars Birgissonar er ef til vill áminning um það hversu mjög stjórnmálin hafa fjarlægst þjóðlífið og orðið samdauna kerfinu. Fáir þingmenn virðast byggja skoðanir sínar á ígrundaðri hugmyndafræði – þeir nálgast viðfangsefnin æ frekar líkt og þeir væru embættismenn.

Í málefnum er tengjast farsóttinni hefur gætt mjög ríkrar tilhneigingar til að færa sérfræðingum de facto ákvörðunarvald um mjög íþyngjandi aðgerðir. Alls staðar eru embættismenn í forgrunni en fáir stjórnmálamenn hafa stigið fram í þeirri umræðu. Það er sem stjórnmálastéttin – pólitískt kjörnir fulltrúar og flokkur aðstoðarmanna þeirra – samsami sig æ meira embættismannakerfinu.

Líflausar stofnanir

Ein aðalröksemd gegn opinberum styrkjum til stjórnmálaflokka hér á árum áður var að ekki mætti neyða skattgreiðendur til að styrkja stjórnmálaflokka sem þeir væru andsnúnir. Slíkt væri beinlínis ósiðlegt og gengi gegn grundvallarhugmyndum lýðræðisins. Sjónarmið af þessu tagi heyrast varla á okkar tímum og kannski er það merki um það hversu lítt umræðan stjórnast af hugmyndafræði.

Við blasir að opinber fjárstuðningur við flokkana og ráðning á sjötta tug pólitískra aðstoðarmanna hefur ekki einasta orðið til þess að flokksmenn leggja miklu síður fé til flokkanna heldur hefur flokksstarfi líka hnignað mjög. Flokkarnir eru ekki lengur fjöldahreyfingar – þeir draga miklu frekar dám af ríkisstofnunum.

Lýðræðinu hætta búin?

Í lýðræðisríki þurfa ólíkar hugmyndastefnur að mætast í rökræðum. Önnur vogarskálin rís en hin fellur, allt eftir atorku og snilli talsmanna stefnanna. Hreinskiptnar umræður um grundvallarrök eru forsenda sáttar og þar með friðar í samfélaginu. Þessi umræða þarf að fara fram á vettvangi frjálsra félagasamtaka – stjórnmálaflokka – þar sem stefnan er mótuð.

Því má velta upp hvort lýðræðinu hér á landi sé ekki hætta búin vegna þess hversu veikir stjórnmálaflokkarnir eru orðnir félagslega. Stundum hefur því verið fleygt að ríkisrekstur kirkjunnar hafi gert hana að lífvana stofnun og margir því krafist aðskilnaðar ríkis og kirkju. Þetta mætti ef til vill heimfæra upp á pólitíkina og rétt að spyrja hvort ekki sé tímabært að aðskilja ríki og stjórnmálastarf?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
21.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni
EyjanFastir pennar
18.03.2024

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið