fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Ólga í Miðflokknum fyrir aukalandsþing – Sagðir vilja halda Vigdísi frá völdum

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 21. nóvember 2020 08:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aukalandsþing Miðflokksins verður haldið í dag í gegnum fjarfundakerfið Zoom og hefst kl. 11. Á fundinum verður kosið um nokkuð róttækar breytingar á lögum flokksins. Til stóð að halda landsfund Miðflokksins í mars síðastliðnum, þar sem meðal annars yrði kosið til æðstu embætta flokksins, en landsfundinum var frestað vegna COVID. Er stefnt á að halda landsfund í apríl 2021.

Tillögur um breytingar á lögum flokksins hafa vakið óánægju hjá einhverjum flokksmönnum. Enginn þeirra vill stíga fram undir nafni en því er haldið fram að lagabreytingum sé sumpart ætlað að halda Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa flokksins, frá völdum. Vigdís hefur lýst því yfir að hún bjóði sig fram í embætti varaformanns á næsta landsfundi og ætlaði hún í framboð á fundinum sem aflýst var í mars.

Gunnar Bragi Sveinsson gegnir í dag bæði embætti varaformanns og þingflokksformanns flokksins. Ef tillögur að lagabreytingum ná fram að ganga á aukalandsþinginu þá verður embætti varaformanns lagt niður og þingflokksformaðurinn mun gegna skyldum hans. Samkvæmt tillögunum verður stjórn Miðflokksins skipuð formanni, þingflokksformanni og öðrum stjórnarmönnum:

„Stjórn Miðflokksins er skipuð formanni og fimm stjórnarmönnum. Auk formanns eiga sæti í stjórn; formaður þingflokks eða formaður laganefndar sbr 3.1.4  2. mgr, þrír fulltrúar kosnir á Landsþingi og formaður fjármálaráðs, sem er skipaður af formanni, án tilnefningar. Atkvæði formanns hefur tvöfalt vægi. Stjórnarmenn, sem kosnir eru á Landsþingi, skulu skipta með sér verkum, sbr. gr. 3.1.2. eftir ákvörðun stjórnar flokksins á fyrsta fundi hennar eftir Landsþing. Stjórn Miðflokksins ber ábyrgð á starfi og fjárhag flokksins ásamt því að hafa umsjón með félagatali.“

Semsagt enginn varaformaður. Síðan segir:

„Hætti formaður störfum eða forfallast, kemur þingflokksformaður fram fyrir hönd flokksins þar til formaður snýr aftur eða boðað hefur verið til aukalandsþings skv. reglum flokksins, geti formaður ekki snúið aftur til starfa.  Forfallist formaður nefndar sem kosinn hefur verið í stjórn á Landsþingi, eða hættir, þá tekur varaformaður viðkomandi nefndar sæti hans í stjórn fram að næsta Landsþingi eða Flokksráðsfundi, ef styttra er í hann, og skal þá kosinn nýr formaður.“

Er unnið gegn Vigdísi?

Ónefndur flokksmaður segir í samtali við DV að þessar lagabreytingar séu smíðaðar í þeim tilgangi að halda Vigdísi Hauksdóttur frá völdum og festa áhrif Gunnars Braga í sessi. Þingflokksformaður er kosinn af þingflokknum en Vigdís situr ekki á þingi.

DV bar málið undir Gunnar Braga sem sagði miklar og góðar lagabreytingar fyrirhugaðar. Hann teldi hins vegar ekki rétt að hann tjáði sig um þær og vísaði til laganefndar flokksins. Vigdís staðfestir í samtali við DV að hún sé í framboði til varaformanns, það sé fyrir löngu komið fram og ekkert hafi breyst í þeim efnum. Hún segist ekki hafa kynnt sér tillögur að breytingum á lögum flokksins.

Þá er það talið vinna með Gunnari Braga við atkvæðagreiðslu í þessu máli að atkvæðabærir fulltrúar á landsþingi eru flestir í hans kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, eða alls 39. Reykjavík norður og suður hafa 33 fulltrúa hvort kjördæmi, Norðausturkjördæmi 30, Suðurkjördæmi 30 og Norðvesturkjördæmi 24.

Varaformannsembættið sagt óþarft

Einar Birgir Kristjánsson, formaður laganefndar Miðflokksins, segir að breytingar á æðstu stjórn flokksins þar sem varaformannsembættið fellur út séu aðeins lítið brot af víðtækum tillögum um breytingar á lögum flokksins.

„Það er líka þarna að finna tillögur sem auka mjög aðgengi flokksmanna að stjórn flokksins,“ segir Einar. Hann ver þau áform að leggja varaformannsembættið niður:

„Það hefur verið unnið að heildarendurskoðun á lögum flokksins en eins og þekkt er varð flokkurinn til á mjög stuttum tíma. Við erum flokkur án hefða og þurfum því ekki að halda í allar venjur sem eldri flokkar hafa tileinkað sér. Núna var til dæmis nýlega varaformannsslagur í Samfylkingunni og það sjá allir að varaformaðurinn þar stefnir ekki að formannsembætti. Það er líka ekki til neinn varaforsætisráðherra, ef forsætisráðherra forfallast þá er gripið til ráðstafana,“ segir Einar ennfremur.

Mannorð Vigdísar og Gunnars Braga

Vigdís er talin njóta meiri vinsælda á meðal almennra flokksmanna en Gunnar Bragi auk þess að vera minna umdeild á meðal almennings. Gunnar Bragi virðist hins vegar njóta meiri stuðnings á meðal helstu valdamanna flokksins.

Vigdís og Gunnar Bragi eru bæði umdeildir stjórnmálamenn. Vigdís hefur gengið hart fram í stjórnarandstöðu í borgarstjórn Reykjavíkur og mörg ummæli hennar hafa orðið umdeild. Hún varð fyrst stjórnmálamanna til að vekja athygli á óreiðunni við endurbyggingu braggans í Nauthólsvík og vakti athygli fjölmiðla á málinu. Einnig má fullyrða að Vigdís hafi óflekkað mannorð.

Gunnar Bragi naut að mörgu leyti velgengni í stóli utanríkisráðherra í samstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks frá 2013 til 2017. Hann var hins vegar mest áberandi af þátttakendum í hljóðrituðum samræðum þingmanna á Klaustur Bar haustið 2018 og hefur ekki fyllilega endurreist mannorð sitt eftir að þær hljóðritanir voru birtar í fjölmiðlum. Þó hefur vissulega fennt í þau spor sem önnur.

Aukaflokksþingið hefst kl. 11 í dag en formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flytur stefnuræðu kl. 13.15.

Kosið er um lagabreytingar kl. 16:50 og eru áætlaðar 20 mínútur í það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum