fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

Andri Snær: Nú getur þú ekki tekið selfie því þú ert með grímu – Þú ert ekki einu sinni með andlit lengur

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 11. október 2020 09:00

Andri Snær Magnason Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andri Snær Magnason segir mikilvægt að manneskjuvæða geðsjúkdóma. Hann getur ekki haft internet og líkir samskiptamiðlum við stafrænt heróín. 

Andri Snær var í helgarviðtali sem birtist fyrst í helgarblaði DV 25. september og er hér aðgengilegt í heild sinni.

„Við vorum tilbúin að sýna þessa mynd í mars. Við vorum því staðráðin í að frumsýna núna, alveg sama þó að það yrðu tíu manns í salnum,“ segir Andri Snær Magnason, rithöfundur, hugsuður og annar leikstjóra myndarinnar Þriðji póllinn sem var frumsýnd 24. september – opnunarmynd RIFF, Reykjavík Film Festival.

Myndin er persónudrifin heimildarmynd, sjálfstætt listaverk, sem fjallar um þau Önnu Töru Edwards og Högna Egilsson sem bæði greindust með geðhvörf um tvítugt, og ferðalag þeirra – innra og ytra – til að vekja athygli á geðheilbrigðismálum.

Til að gera mynd um ferðalagið fengu þau til liðs við sig Andra Snæ og Anní Ólafsdóttur leikstjóra. Upphaflega var hugmyndin að taka upp tónleika til vitundarvakningar í Nepal, á heimaslóðum Önnu Töru, en verkefnið vatt fljótt upp á sig. Öllum var ljóst að þetta var eitthvað miklu meira.

Við gerð myndarinnar leituðu þau ráða hjá ýmsum fagaðilum í geðheilbrigðismálum, hjá geðlæknum, sálfræðingum og Píeta-samtökunum sem vinna að forvörnum gegn sjálfsvígum. Nú á tímum kórónaveirunnar með tilheyrandi skerðingum á ýmsum félagslegum þáttum virðist hafa orðið mikil breyting á líðan þjóðar.

Hefði endað sem pulsuróni

„Ég upplifi að öfgarnar séu í báðar áttir. Sumum líður miklu betur, þeir upplifa minni streitu og finnst þetta kærkomið tækifæri til að endurnýja kynni við fjölskylduna. Síðan er það hitt, það sem var slæmt hefur orðið verra. Fólk er læst inni á heimilum sínum og margir misst athvarf í skóla og vinum. Drykkja og heimilisofbeldi virðist vera að aukast og margir hafa misst vinnuna. Aldrei hefur verið jafn mikilvægt fyrir fólk að tala um hvernig því líður. Ég þurfti að fara í fimm daga sóttkví og ég var orðinn alveg sósaður. Þó ég væri ekki veikur þá fór ég ekkert út að skokka og öll rútína fór úr skorðum. Þetta sýnir manni hvað fólk getur verið fljótt að koðna niður. Ætli ég hefði ekki endað sem pulsuróni eftir tvær vikur, einn á nærbuxunum að sjóða pulsur.“

Andri Snær er fæddur 14. júlí 1973, á sjálfan Bastilludaginn. Hann er giftur Margréti Sjöfn Torp og saman eiga þau fjögur börn. Andri hefur fjallað um umhverfisvernd í mörgum sinna stærstu verka, til að mynda Draumalandinu og svo Tímanum og vatninu sem kom út í fyrra.

„Við erum öll samtengd. Veiran hefur sannað hvernig heilsa okkar allra er samtengd og það sama gildir um jörðina. Við erum öll tengd heilsu jarðar sem við sýnum ekki nægilega mikla virðingu.“

Mynd/Sigtryggur Ari

Persónur í dæmisögu Esóps

Hann segist mjög áhugasamur um goðafræði og dæmisögur hins forngríska Esóps, og finnst eins og við öll séum nú persónur í einni slíkri dæmisögu.

„Einstaklingshyggjan vex og allir eignast tæki sem getur sýnt þeim allt í heiminum. Fólk getur tekið mynd af hverju sem er, fræðst um allt í veröldinni og skrifað um allt í heiminum en mannfólkið snýr myndavélinni að sjálfu sér og birtir eintómar selfies. Guðirnir á fjallinu sjá þetta og hugsa: „Þau halda að þau séu einstaklingar. Við skulum þá leyfa þeim að vera einstaklingar.“ Þeir setja nýjar reglur og nú má enginn lengur snertast. „Þið þykist vera þjóðríki og lönd með landamæri,“ segja guðirnir og loka landamærunum. „Prófiði nú að vera land! Prófiði að vera bara land og einstaklingar og sjáið hvað það er ömurlegt.“ Við megum ekki snertast og ekki einu sinni fara á tónleika. Við erum meira að segja einstaklingar gagnvart ömmu okkar. Fólk heldur áfram að taka selfie og þá bæta guðirnir við reglu. „Nú getur þú ekki tekið selfie því þú ert með grímu fyrir andlitinu. Þú ert ekki einu sinni með andlit lengur.“ Það er eins og við séum að ganga í gegn um einhverja Mídasarsögu,“ segir Andri og vísar til sagna af gríska konungnum Mídasi sem fékk þá ósk sína uppfyllta að allt sem hann snerti breyttist í gull, líka matur og drykkur, og dó hann úr hungri. „Guðirnir segja: „Þú vildir þetta. Gjörðu svo vel.““

Það var fyrir fjórum árum sem þau ferðuðust öll til Nepal. Af hverju ákvaðst þú að gera mynd um geðhvörf?

„Það var myndin sem valdi mig. Ég var á þessum tíma nýbúinn að skila af mér smásagnasafninu Sofðu ást mín og þar er saga sem heitir Lególand sem fjallar um strák í vinahópnum mínum sem framdi sjálfsvíg. Nepalferðin fjallar um sjálfsvígsforvarnir.

Ég hef alltaf verið forvitinn um þennan geðheim og þessi efnahvörf sem leiða fólk ofan í myrkrið en líka upp í himinhvolfin. Margir verða fyrir hugljómun og nánast trúarlegri reynslu. Hjá fólki með geðhvörf er tilfinningarófið miklu stærra en hjá flestum. Það fer hærra upp og miklu lengra niður.

Ég var líka forvitinn því fólk í maníu hefur oft samband við mig. Ég man að fyrst var ég hræddur þegar það gerðist, ég vissi ekki hvað þetta var og fann að ég var með heilmikla undirliggjandi fordóma. Ég hef skrifað skrítnar sögur og er oft að fikta í stórum hugmyndum, og fólki í maníu hefur kannski fundist við vera í einhvers konar bræðralagi.

Í myndinni vildum við lýsa Önnu Töru og Högna en ekki gera þau að sjúklingum. Þetta er sjálfstætt listaverk en ekki fræðslumynd. Að skapa listaverk út frá lífi annarra er ábyrgðarhlutverk og ég vona að okkur hafi tekist að gera það vel.“

Merkt sem sjúklingar

Andri Snær bendir á að fæsta þeirra sem hann þekkir og eru með skilgreindan geðsjúkdóm myndi hann kalla veikt fólk. „Það getur orðið veikt og hefur orðið veikt og tekur kannski lyf til að halda sjúkdómnum niðri en almennt hefur það kannski bara verið veikt lítinn hluta af lífinu. Það er erfitt fyrir fólk að vera skilgreint og fá á sig þann merkimiða að það sé sjúklingur. Sú staðreynd að hafa farið inn á geðdeild er nánast nóg álag til að senda flesta á geðdeild. Skömmin og vanlíðanin getur komið í veg fyrir að fólk leiti sér aðstoðar. Það væri óhugsandi að við myndum skammast okkar svo mikið fyrir að fótbrotna að við myndum liggja heima þar til það kæmi ígerð í fótinn, því það væri svo mikil skömm að hafa farið á slysó. Skömm sem veldur vanlíðan sem veldur enn meiri vanlíðan er hættulegur spírall. Myndin er hluti af því að manneskjuvæða geðsjúkdóma og uppræta þennan spíral.“

Hefur þú sjálfur upplifað þessar tilfinningar sem lýst er í myndinni?

„Nei, ekki formlega. Allir fara í gegn um alls konar tímabil. Almennt hef ég verið með mikið jafnaðargeð en gæti verið með ógreindan athyglisbrest. Ég var í mikilli vinnutörn og stuði fyrir nokkrum árum og tók geðheilsupróf á netinu. Þar var spurt hvort ég talaði meira en venjulega, væri með stórar hugmyndir, hugsaði meira um kynlíf, hvort lífið væri frábært, hvort ég vildi bjarga heiminum og öll svörin mín voru jákvæð. Þá fékk ég viðvörunarorð á skjáinn um að þetta gætu verið merki um maníu. Ég vissi að ég væri réttum megin við línuna, að ég væri einmitt þá í tímabundnu stuði. Við erum öll alls konar og eigum alls konar tímabil en þegar menn fara yfir línuna er mikilvægt að leita sér aðstoðar.

Mynd/Sigtryggur Ari

Sjálfsvíg víða

Ef ég hefði verið spurður hvort það væru geðsjúkdómar í mínu nærumhvefi hefði fyrsta svar verið neitandi. Ég sýndi frændfólki mínu í Ameríku myndina og þá hófst samtal um að afi hefði verið lagður inn á sjúkrahús vegna þunglyndis. Ég vissi aldrei af þessu. Dísa, amma mín í hina ættina, talaði oft um föður sinn sem var „sinnisveikur“ en á þeim tíma voru hvorki greiningar, lyf né lækningar. Amma var aðeins átta ára gömul send burt því það voru erfiðleikar á heimilinu. Annar afi minn lýsti fyrstu æskuminningu sinni, að álpast upp á háaloft í húsi og sjá þar mann sem var geymdur í búri.

Minn vinahópur samanstendur af tíu strákum úr Árbænum og eiginkonum þeirra. Einn sem tengist hópnum hefur framið sjálfsvíg, og ef eiginkonur eru taldar með hafa tveir feður framið sjálfsvíg og tveir aðrir voru óvinnufærir vegna geðsjúkdóma. Þessi vinahópur er venjulegasti vinahópur í heimi, farsæll og fallegur hópur. Það var síðan í fyrra sem vinur sonar míns framdi sjálfsvíg.

Áður fyrr var það þannig að það mátti ekki tala um sjálfsvíg, umræðan átti að vera smitandi. Auðvitað þarf að tala um þessa hluti en það þarf að gera af ábyrgð, það hefur margsýnt sig að það er hægt að leiða fólk út úr þessum hugsunum. Mér fannst það mikið ábyrgðarhlutverk þegar Högni fékk okkur í að gera þessa mynd. Það vill síðan þannig til að það er sjálfsvíg sem brýst inn í myndina hjá okkur og þá verða ákveðin hvörf í verkinu. Við vorum að gleyma okkur í flippinu, fyndnum maníusögum og fílum þegar blákaldur veruleikinn allt í einu ryðst inn með símtali frá Íslandi eftir að kunningi Högna hafði framið sjálfsvíg þá um nóttina. Við vorum að fara að halda tónleika til að stofna sjálfshjálparlínu í Nepal en það eru ekki bara íbúar Nepal sem þurfa hjálp. Þetta er alþjóðlegt vandamál. Þetta er okkar vandamál.“

Svo ótrúlega vildi til að sama dag og Anní sendi frá sér fyrstu heildstæðu drögin að myndinni í fyrrasumar, sendi Andri lokaútgáfu af Tímanum og vatninu til útgefanda. „Þetta var mikill uppskerudagur og mér leið eins og bónda sem væri á sama tíma að stappa á þrúgum og með sláturfat í fanginu.“ Það er auðvitað talsvert verkefni að vinna samtímis með verk sem fjalla um loftslagsmál og geðheilsu.

Varð að sjá Himalayafjöllin

Andri Snær segir verkin hafa talað saman á ákveðinn hátt. Þannig hafi hann þurft að komast til Nepal til að sjá og snerta Himalayafjöllin sem koma við sögu í Tímanum og vatninu. „Mér fannst ég ekki getað klárað það verk án þess að sjá Himalayafjöllin. Verkin nærðu því hvort annað. Og í lok bókarinnar er ég staddur við heilagt fljót, það er fljótið þar sem við skutum megnið af myndinni okkar.“

Undir venjulegum kringumstæðum, þar sem engin kórónaveira hefði komið til sögunnar, ætti Andri Snær nú ekki aðeins að vera að kynna myndina heldur einnig að ferðast um heiminn til að kynna Tímann og vatnið. „Ég hefði átt að vera á Ítalíu, á leiðinni til Ástralíu, frá Ástralíu beint til Vancouver og þaðan til Berlínar og Norðurlandaferð í kjölfarið. Bókin mín er núna að koma út í 26 löndum og ég hefði átt að vera á ferð og flugi.

Raunar væri ég þannig kominn í mótsögn við sjálfan mig með öllum þessum flugferðum. COVID-ástandið er lítið dæmi miðað við þær loftslagsbreytingar sem ég fjalla um í Tímanum og vatninu. Þó að okkur hafi fundist sem það hafi verið slökkt á heiminum og slökkt á flugumferð þá fórum við aðeins niður um 20 prósent í losun gróðurhúsalofttegunda. Heimurinn var sannarlega truflaður rækilega og okkur gefst tækifæri til að endurhugsa allt. Á næstu 20- 30 árum þurfum við að ná svo róttækum framförum í sambandi við hvernig við högum okkur gagnvart jörðinni. Ímyndum okkur að hér væru tvær veirur í gangi samtímis, önnur þeirra drepur 1 prósent þeirra sem fá hana, hin bræðir alla jökla heimsins, hækkar yfirborð hafsins, hitastig jarðar með tilheyrandi skógareldum og gæti hrakið 10 prósent jarðarbúa á flótta og drepur dýr í svo miklum mæli að það er kallað sjötta útrýmingin. Hvor veiran væri talin skæðari?

Mynd/Sigtryggur Ari

Dauðlegir menn orðnir þrumuguðir

Við lifum sérstaka tíma. Leiðtogar heimsins hafa aldrei áður hist til að ræða um veðrið og áhrif sín á veðurfar jarðar. Napóleón gerði það ekki, Sesar gerði það ekki og Genghis Khan gerði það ekki. Nú höfum við fengið það vísindalega staðfest að við erum að breyta veðrinu og getum tekið ákvarðanir um veður framtíðarinnar. Allt í einu eru dauðlegir menn orðnir þrumuguðir án þess að átta sig á því sjálfir. Hér hafa orðið kaflaskil í mannkynssögunni þegar menn hittast í fyrsta skipti til að tala um áhrif sín á veðrið en við virðumst ekki átta okkur á því. Okkur finnst „loftslagsráðstefna“ vera frekar óspennandi fyrirbæri. Við virðumst ekki skilja þetta.

Á næstu árum þurfa að verða róttækar framfarir á öllum sviðum sem hafa áhrif á hvað við borðum, hvert við ferðumst, hvaðan orkan kemur, hvernig við ferðumst, hvernig við framleiðum hluti og hvernig við hendum rusli, eða öllu heldur, hvernig rusl verður ekki lengur til. Það voru færðar fórnir fyrir kórónaveiruna og það er hægt að mæta loftslagsvandanum með minni fórnum. Það má fara í bíó, faðma ömmu sína og fara á tónleika en margt annað sem þarf að breytast eða endurhanna. Næstu ár ráða úrslitunum um framtíð jarðarinnar.“

Fannst þau hafa stolið LoveStar

Andri Snær og verk hans hafa orðið mörgum innblástur. Árið 2002 kom út bókin LoveStar. Þetta var fyrsta skáldsaga hans fyrir fullorðna en Andri hafði þá sent frá sér tvær ljóðabækur og barnabókina Sagan af bláa hnettinum. Í bókinni er nokkuð raunsæ lýsing á samfélagsmiðlum og áhrifavöldum nútímans, og árið 2016 kom út þáttur í dystópísku seríunni Black Mirror sem var nánast eins og unninn upp úr LoveStar. „

Mér fannst eiginlega eins og þau hefðu stolið LoveStar. Það var pirrandi að vera fastur með LoveStar á íslensku árið 2002. Tíu árum eftir að LoveStar kom út las ég í Wired magazine um hugmyndir sem ég hafði skrifað um og áttu að vera framúrstefna þá. Bókin kom síðan ekki út á ensku fyrr en 2012, en Black Mirror gæti vel hafa stolið úr henni, einn þátturinn var meira að segja myndaður í Toppstöðinni, skrifstofunni minni. En nú er ég kannski farinn að nálgast oflætið og paranojuna. Í LoveStar er fjallað um hvernig allt er kapítalíserað, fyrst er það yfirborð alls sem er nýtt í auglýsingar en síðan færist það yfir í samskipti. Þá er búið að breyta samskiptum í kapítal, áhrif og læk, og hægt að innleysa vinsældir á samfélagsmiðlum með vörum og þjónustu sem áhrifavaldur.“

Þrátt fyrir að leggja alla þessa hugsun í skaðleg áhrif samfélagsmiðla játar Andri Snær að vera bara mannlegur, hann sé sjálfur virkur þátttakandi, eða öllu heldur, jafn varnarlaus og aðrir gagnvart þessum tækjum.

„Ég er orðinn paródía af þessum rithöfundi sem skrifaði LoveStar. Ég er á öllum samfélagsmiðlum að auglýsa sjálfan mig og reyna að fá fólk til að kaupa það sem ég er að búa til. Og auðvitað er það þversögn, sá sem er í símanum og sér bókarkápuna er ekki að lesa bók og getur það hugsanlega ekki lengur. En ef ég fæ læk er ég sáttur. Snilldar hönnun hjá þeim í Silíkondalnum.“

Mynd/Sigtryggur Ari

Ávanabindandi samfélagsmiðlar

Hann er vel meðvitaður um að samfélagsmiðlar eru beinlínis hannaðir til að fá fólk til að nota þá sem mest. Þeir eru ánetjandi. „Þetta er þaulhugsað hjá þeim. Ég er svo heppinn að ráða vel við áfengi og drekk nánast ekkert, ég á enn jólabjórinn um páskana og páskabjórinn um jólin. Ég get hins vegar ekki átt súkkulaði og ég get ekki haft internet. Þegar ég skrifaði LoveStar gat ég skrifað á tölvu sem var ekki nettengd. Ég fann hvað netið truflaði mig mikið og hvað tíminn hvarf.

Samfélagsmiðlar eru að þróa stafrænt heróín. Það er verið að prófa okkur á hverri mínútu og reynt að láta okkur hanga sem lengst á þessum miðlum. Þeir eru að verða betri og betri í því, við eigum ekki séns. Ég hef lesið viðtöl við menn sem hafa ánetjast spilakössum og þeir lýsa því hvernig tíminn hvarf. Ég skildi aldrei hvernig einhver gat setið í sjoppu í sex klukkutíma í spilakassa. Spilakassarnir eru hannaðir þannig að fólk ánetjast þeim, öllum þessum hljóðum og ljósum, og það nánast truflar flæðið að fá vinning. Ég hef upplifað að opna kisumyndband klukkan átta og síðan er klukkan allt í einu orðin hálf eitt, þetta er sama hönnun. Það hlýtur að koma að því að þeir verði neyddir til að setja upp truflanir, eitthvað sem rýfur dáleiðsluna, eins og viðvaranir utan á tóbakspökkum, þá kemur skilti: Þú ert búinn að skrolla í klukkustund. Er það meðvitað?“

Spurður um af hvaða verkum hann sé stoltastur segist Andri almennt vera ánægðastur og spenntastur fyrir nýjasta verkinu hverju sinni. „Ég hef alltaf verið stoltur af góðu dagsverki. Þegar ég var að helluleggja með skóla var ég stoltur af mörgum hellulögnum sem ég gerði. Ég get sýnt þér eina í Smárahverfinu á Google Earth. Ég held að það sé eðlilegt að vera stoltur af sínum verkum ef maður hefur lagt sig fram og vandað sig eins og maður gat. Yfirleitt er ég stoltastur af nýjasta verkinu mínu, ekki síst þegar mér tekst að gera eitthvað sem er mjög ólíkt því sem ég gerði síðast.

Mér þykir vænt um að Blái hnötturinn er enn að koma út um allan heim. Ég er ánægður með að Tíminn og vatnið varð á endanum eins og ég vildi. Það var erfitt að skrifa hana, líkamlega og andlega. Ég hef síðustu mánuði fengið viðbrögð við henni á ólíkum tungumálum og mér finnst það mikils virði, að skrifa eitthvað á íslensku sem fær svipuð viðbrögð í Póllandi og ég fékk hér heima. Nú er ég spenntur að sjá hvernig þessari mynd verður tekið, en þetta er mjög ólíkt öllu sem ég hef gert áður. Mér finnst gaman að enduruppgötva mig og gera eitthvað öðruvísi en síðast. Ég hef þörf fyrir að sanna mig á nýjum sviðum, gera eitthvað sem ég veit ekki hvort ég kann.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvað varð um leikkonuna úr Shining sem sneri baki við Hollywood? – „Ég var stjarna“

Hvað varð um leikkonuna úr Shining sem sneri baki við Hollywood? – „Ég var stjarna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 4 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“