fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Helgi er látinn: „Hann var örlátur, hvatvís og athafnasamur“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 17. ágúst 2020 13:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgi Steingrímsson, tónlistarmaður með meiru, er látinn, 77 ára að aldri. Banamein hans var lungnakrabbamein en Helgi kvaddi þennan heim á Líknardeild Landspítalans snemma að morgni laugardagsins 15. ágúst. Helgi er frá Brú í Hrútafirði en bjó lengstan hluta ævi sinnar í Reykjavík.

Helgi skilur eftir sig litríkt æviverk, ekki síst á tónlistarsviðinu, en hann var flínkur og eftirsóttur gítarleikari í danshljómsveitum. Bróðir Helga, Þórir Steingrímsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, er þremur árum yngri en Helgi, og minnist meðal annars sögufrægs dansleiks hljómsveitar þeirra bræðra og annarra, á Ströndum árið 1962:

„Tuttugu árum síðar þegar ég gerði mér ferð norður á Strandir voru menn enn að tala um þetta ball í Gjögri, sem Ballið með stóra B-inu. Við tæmdum sveitina því hver einasti íbúi á svæðinu, 180 talsins, kom á ballið,“ segir Þórir.

Meðfylgjandi mynd sýnir þessa hljómsveit en hana skipuðu, frá vinstri að telja, Jón Þorsteinsson, Örvar Kristjánsson, Þórir Steingrímsson og Helgi Steingrímsson.

Sjálfur lék Þórir á trommur en Helgi var, sem fyrr segir, annálaður gítarleikari. „Helgi var mjög fær og eftirsóttur gítarleikari, ekki síst vegna þess hvað hann var vel inni í þessum slögurum sem voru vinsælir,“ segir Þórir, en í lagavalinu kvað mikið að hinni vinsælu hljómsveit, Shadows. Lagði Helgi sig mikið fram um að stúdera tónlist og stíl sveitarinnar.

Tónlistarferill Helga hófst í skólahljómsveit í Reykjaskóla en þeir stofnuðu upp úr 1960 hljómsveitina Brúartríóið sem spilaði við góðan orðstír á sveitaböllum og réttarböllum á norðurlandi.

Síðar spilaði Helgi með þekktum hljómsveitum, má þar nefna hljómsveitirnar Erni og Hauka. Hann átti í samstarfi við marga þjóðþekkta tónlistarmenn, til dæmis Vilhjálm Vilhjálmsson og Engilbert Jensson, svo fáir séu nefndir.

Ástríðufullur athafnamaður

Helgi starfaði lengi sem skrifstofumaður og skrifstofustjóri hjá Loftleiðum. Hann lagði gjörva hönd á margt, kom til dæmis að bókaútgáfu og ritstjórn, sem og hljómplötuútgáfu.

Helgi var þrígiftur og lætur eftir sig sex börn á ýmsum aldri.

„Hann var örlátur, hvatvís og athafnasamur. Hann var laus við allt sem kalla má dómhörku,“ segir Þórir.

Helgi skilur eftir sig fallegar og litríkar minningar í hugskoti þeirra sem kynntust honum. Eins og þessi skrif bera með sér kveður þar mikið að ánægjulegum tónlistarferli. Þórir segir að Helgi hafi haft lag á að hrífa áheyrendur með sér og ljúfar minningar frá sveitaböllum þar sem hann spilaði hafa fylgt mörgum út ævina.

Útför Helga Steingrímssonar verður auglýst síðar.

DV sendir öllum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí