Héraðsdómur hafnaði í gær kröfu Guðrúnar Benediktsdóttur um lögskilnað frá írakska Kúrdanum Aras Nasradeen Kak Abdullah en veitti henni skilnað að að borði og sæng. Mál þeirra Guðrúnar og Aras hefur vakið mikla athygli og verið fjallað mikið um það í fjölmiðlum en Guðrún telur að Aras hafi vélað hana í sýndarhjónaband í því skyni að fá atvinnuleyfi hér á landi, og hann hafi neitað henni um skilnað löngu eftir að hann var farinn frá henni og byrjaður að leggja lag sitt við aðrar konur, til þess að viðhalda dvalarleyfi sínu hér á landi.
Guðrún er á ríflega miðjum sextugsaldri en Aras er rúmlega 20 árum yngri. Þau kynntust í gegnum Facebook en Aras kom hingað til lands eftir að kynni þeirra urðu náin þar. Segist Guðrún hafa gifst af ást en Aras hafi nýtt sér trúgirni hennar. Aras hefur starfað við byggingarvinnu hér á landi, meðal annars járnabindingar.
Mál þeirra hjóna er í lokuðu þinghaldi og hefur dómurinn ekki verið birtur á vef dómstólanna. DV hefur dóminn ekki undir höndum. Ef annað hjóna en ekki hitt krefst lögskilnaðar þarf að höfða mál til að fá hann í gegn ári eftir að skilnaður að borði og sæng hefur verið lögfrestur. Skilnaður á þeim grundvelli er veittur.
Hægt er að krefjast lögskilnaðar fyrir rétti án undangengins skilnaðar að borði og sæng á grundvelli hjúskaparbrota eða ofbeldis í sambandi. Svo virðist sem héraðsdómur hafi hafnað kröfu um lögskilnað á þeim grundvelli.
„Það er verið að brjóta á mér mannréttindi,“ sagði Guðrún í stuttu spjalli við DV í kjölfar úrskurðarins. Var hún afar ósátt við niðurstöðuna. „Ég hélt ég væri búin að vinna málið með fimm góð vitni og það tók dómarann mánuð að komast að þessari niðurstöðu. Mér er haldið nauðugri í þessu hjónabandi.“
Samkvæmt heimildum DV verður málinu áfrýjað til Landsréttar.