Manchester United hefur ákveðið að nýta sér lánalínu sem félagið hefur aðgang að. Félagið hefur aðgang að 150 milljónum punda.
Ensk blöð segja að United hafi nú ákveðið að opna á að nota 140 milljónir punda af því í sumar. Félagið vill geta látið til skara skríða á félagaskiptamarkaðnum.
Staða knattspyrnufélaga er svört vegna kórónuveirunnar en Manchester United gaf út skýrslu í síðustu viku um málefni félagsins. Skuldir félagsins hafa hækkað um 42 prósent á síðustu vikum. Tekjur félagsins hafa minnkað um 19 prósent miðað við sama tíma í fyrra.
Félagið skuldar nú 429 milljónir punda og hafa skuldirnar hækkað um 127 milljónir punda. Skuldir félagsins eru í dollurum og hefur gengið haft þar áhrif.
Ed Woodward vill vera með fjármuni á milli handanna í sumar ef möguleiki er á því að kaupa Jadon Sancho, Jack Grealish og fleiri bita sem félagið hefur horft til.