Elenora Rós Georgesdóttir er 19 ára Suðurnesjamær og upprennandi bakari. Hún er bakaranemi í Menntaskólanum í Kópavogi og varð nýlega andlit bakaranema í átakinu #fyrirmig og má meðal annars sjá myndir af henni á strætóskýlum landsins.
Varð óvænt andlit átaksins
Aðspurð hvernig hún endaði sem andlit bakaranáms svarar hún: „Það var allt mjög óvænt. Ég spurði meira að segja „af hverju ég?“ og svarið var þá að þau fundu mig á Instagram og höfðu samband eftir það.
Ég var í hádegismat í vinnunni þegar ég fékk símtal frá manninum sem sér um þetta verkefni og hann spurði hvort ég hefði áhuga á að vera með. Fyrir ekki svo löngu setti ég mér það markmið að reyna að segja já við sem flestum tækifærum sem ég fæ. Þar af leiðandi hugsaði ég mig ekki einu sinni um, fannst þetta mjög spennandi og mikilvægt átak og sagði því strax já. Seinna hafði Saga Sig ljósmyndari samband og eftir það rúllaði þetta allt. Kom ótrúlega vel út og þó svo að ég sé afar hlédræg þegar kemur að svona hlutum þá er ég virkilega þakklát og stolt af að hafa fengið að vera með í þessu.“
#fyrirmig
En hvað er #fyrirmig? spyr blaðamaður þá.
„Átakið #fyrirmig er kynningarátak sem allir starfs- og tæknimenntaskólar, í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga og menntamálaráðuneytið standa að. Markmiðið með átakinu er að vekja athygli á starfsog tækninámi og þeim tækifærum sem slíkt nám býður upp á.“
Lærði kökuskreytingar í grunnskóla
Elenora er, þrátt fyrir ungan aldur, enginn nýgræðingur í bakstri. Áhuginn kviknaði snemma á lífsleiðinni.
„Ég var mjög ung þegar mér byrjaði að finnast gaman að baka. Ég á hrikalega sætar myndir af mér úr leikskóla þar sem ég er að baka afmæliskökuna mína með stærsta bros á vör. En áhuginn á að baka sjálf kviknaði fyrst hjá mér um 12 ára. Ég var ekki mikil keppniskona en eins og á árshátíðardögum í grunnskóla þegar við máttum mæta með bakkelsi fór ég yfirleitt skrefinu lengra og kom með eitthvað spennandi, fannst mjög gaman þegar ég fékk svo hrós fyrir það sem ég kom með. Í grunnskóla skráði ég mig í kökuskreytingaáfanga í vali og gaf út tvær krúttlegar uppskriftabækur í öðrum áfanga. Áhuginn varð mjög mikill mjög snemma en ég hélt því mikið bara fyrir mig að mig langaði að verða bakari. Sú ákvörðun varð ekki opinber fyrr en ég komst inn í MK og er bakarinn stærsti hlutinn af mér í dag.“
Bakar sig í gegnum samkomubann
En hvað finnst þér skemmtilegast að baka og hvað leiðinlegast?
„Þetta er erfið spurning. Mér finnst alltaf skemmtilegt að baka það sem heppnast vel og er fallegt, stolt er mjög drífandi tilfinning. Ef ég þyrfti að nefna eitthvað ákveðið myndi ég segja desertkökur, súrdeigsbrauð og croissant. Þetta er allt eitthvað sem maður þarf svolítið að pæla í til að ná fullkomnu, tekur langan tíma og endar guðdómlega ef það er gert rétt. Það jafnast lítið á við tilfinninguna að horfa á vöru sem maður hefur unnið að í langan tíma sem heppnaðist vel og er bæði falleg og bragðgóð.
Mér finnst eiginlega ekki leiðinlegt að baka neitt. Ef ég set á góða tónlist eða vinnudagurinn er að ganga vel þá er ekkert sem er sérstaklega leiðinlegt. Sum verkefni eru samt leiðinlegri en önnur enþað er þannig í öllu í lífinu.“
Nú hefur samkomubann og takmarkanir vegna COVID-19 sett strik í reikninginn hjá mörgum menntaskólanemum. Elenora lét það þó ekki stoppa sig í því að baka. Þvert á móti bakar hún nú sem aldrei fyrr.
„Heldur betur. Það er í raun það eina sem heldur mér gangandi. Ég er rosa „aktíf“ manneskja og fannst mjög skrýtið að þurfa að vera heima, geta lítið farið og vera ekki í vinnu þar sem ég elska vinnuna mína og fólkið mitt þar. Ég elska að vakna snemma, stilla á góða tónlist og baka eitthvað gott og fara svo og færa einhverjum sem mér þykir vænt um. Ég hef í raun bakað nær daglega. Ég er kannski í fríi frá vinnu en vil samt nýta þennan tíma í að kafa dýpra og læra meira.“
Leyndardómsfull bakstursósk
Elenoru hefur einnig tekist að láta gott af sér leiða með bakstrinum. Árið 2017 var Elenora kosin Suðurnesingur ársins og bakaði af miklum móð í þágu góðra málefna.
„Ég fæddist með sjaldgæfan fæðingargalla sem kallast Omphalocele. Ég þurfti þar af leiðandi oft á hjálp Barnaspítalans að halda. Seint árið 2016 ákvað ég að helga árið 2017 því að baka og selja kökur og safna pening til styrktar Barnaspítalanum. Þetta var eitthvað sem ég ákvað alveg á eigin spýtur og fór allur ágóði óskertur til styrktar spítalanum til að þakka þeim fyrir alla þá hjálp sem ég fékk frá þeim. Fólkið þar er það besta í heimi og ég hef alltaf líkt fólkinu þar við engla í dulargervi.
Seint árið 2018 hélt ég svo viðburð til styrktar minningarsjóði Einars Darra. Í bæði skiptin var þetta algjör hvatvísi hjá mér, hugmynd sem ég fékk og framkvæmdi strax en er svo þakklát fyrir að hafa látið verða af. Ég fékk símtal, einmitt þegar ég var inni í Allt í köku, þar sem ég var beðin um að baka köku fyrir mann ársins en fékk aldrei að vita hver það væri, bara að ég ætti að hafa mig til því ég þyrfti að fara í smá viðtal líka. Í viðtalinu var ég svo beðin um að skrifa nafnið mitt því ég væri maður ársins. Ég átti mjög bágt með mig og brast í grát, uppfull af þakklæti. Minning sem ég geymi fast í hjartanu mínu.“
Stefnir hátt
En hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir þessa efnilegu konu?
„Ef allt fer samkvæmt áætlun útskrifast ég á næsta ári, 2021, sem bakarasveinn. Mig langar í framhaldi af því út í pastrynám. Eftir fimm ár sé ég mig útskrifaða bæði sem bakara og pastrychef, búin að búa erlendis og mögulega vinna þar. Ég verð komin heim, í góðri vinnu og vonandi að stefna á að opna mitt eigið fyrirtæki, hvort það yrði bakarí, veisluþjónusta eða eitthvað annað kæmi þá í ljós seinna.“
Það er þó lítið gagn í því að baka bara út í loftið, einhver þarf að njóta afrakstursins. Hvern er skemmtilegast að baka fyrir og hvers vegna?
„Þá sem kunna að meta vinnuna sem maður setur í það sem maður er að baka og eru þakklátir fyrir það. Ég reyni að gefa aldrei neitt nema ég sé ánægð með það. Yfirleitt fer mikil vinna í það sem maður bakar og þess vegna er ekkert leiðinlegra en að afhenda vanþakklátu fólki eitthvað sem maður er stoltur af og eyddi miklum tíma í. En skírnarkökur eru algjört uppáhald. Það er eitthvað svo dýrmætt við það að vita nafnið á litlu barni á undan öðrum.“
Svona að lokum: Hvaða myndir þú vilja gefa þeim sem hafa áhuga á bakstri og vilja skara fram úr á því sviði?
„Að hafa trú á sjálfum sér. Ég er komin svo langt, en væri komin svo miklu lengra ef ég hefði ekki alltaf hlustað á neikvæð ummæli frá öðrum. Ef maður vill skara fram úr og vera góður í því sem maður gerir er gott sjálfstraust lykilatriði. Að treysta sjálfum sér, leyfa sér að gera mistök en læra af þeim, að standa með sjálfum sér og hvetja sjálfan sig áfram. Og ef þú vilt skara fram úr þá verðurðu að vinna fyrir því. Taktu þátt í því sem þér stendur til boða, farðu skrefinu lengra en þú þarft, lestu þér til á netinu, fáðu innblástur úr öllum áttum og hlustaðu vel þegar fólk er að kenna þér og leiðbeina. Þú munt aldrei skara fram úr nema þú sért tilbúinn að leggja vinnuna í það.“
Elenora er á Instagram þar sem hún deilir með fylgjendum bakstri og öðru undir nafninu bakaranora
https://www.instagram.com/p/B_kVMGYAgEs/