fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Utanríkisþjónustan áttatíu ára í dag – Tímamótum fagnað í skugga heimsfaraldurs

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 10. apríl 2020 09:09

Lýðveldisdaginn 17. júní 1944 var skjaldarmerki konungsríkisins Íslands fjarlægt af sendiráðinu í Washington. F.v: Þórhallur Ásgeirsson (síðar ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins), Henrik Sv. Björnsson sendiráðsritari (síðar ráðuneytisstjóri) og Thor Thors, sendiherra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag eru áttatíu ár liðin frá því að Íslendingar tóku meðferð utanríkismála í eigin hendur og utanríkismáladeild Stjórnarráðsins var gerð að utanríkisráðuneyti. Markar þessi tímapunktur upphaf íslensku utanríkisþjónustunnar. Greint er frá þessu á vef stjórnarráðsins.

Í sögu utanríkisþjónustunnar hefur starfsemi hennar sjaldan verið Íslendingum sýnilegri en á undanförnum vikum. Sér í lagi þeim þúsundum einstaklinga sem hafa komið heim frá öllum heimshornum vegna Covid-19 faraldursins, með liðsinni borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins og ríflega 200 ræðismanna sem vinna sem sjálfboðaliðar fyrir Ísland í 90 löndum.

Í tilefni afmælisins hefur utanríkisráðuneytið sett upp sérstakan afmælisvef þar sem farið er yfir sögu íslenskrar utanríkisþjónustu í máli og myndum. Þar má einnig finna Utanríkisvarpið, nýtt hlaðvarp utanríkisþjónustunnar, en nýjasti þátturinn fjallar um starfsemi borgaraþjónustunnar í Covid-19 faraldrinum.

„Á tímum sem þessum kemur það skýrt í ljós að þótt alþjóðlegt samstarf og norræn samstaða séu afar mikilvæg fyrir Ísland, þá þurfum við að gæta okkar hagsmuna sjálf. Þetta er gott að hafa hugfast þegar við minnumst þess að fyrir áttatíu árum tóku Íslendingar þá gæfuríku ákvörðun að taka meðferð utanríkismála í sínar hendur. Nú eins og þá er mikilvægt að við höfum áfram öfluga utanríkisþjónustu. Þrátt fyrir smæðina sinnir hún sínu hlutverki af krafti eins og berlega hefur komið í ljós á undanförnum vikum. Það skiptir miklu máli fyrir sjálfstæða þjóð,“

segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra.

Nánar um afmælisvefinn

Á afmælisvefnum gefst lesendum kostur á að líta um öxl á þessum umrótatímum og kynnast sögu utanríkisþjónustunnar allt frá árdögum hennar. Þar má finna safn mynda úr sögu utanríkisþjónustunnar, sögulegt yfirlit og pistla sem segja frá áhugaverðum málum og merku fólki sem hefur sett svip sinn á utanríkisþjónustuna í gegnum tíðina.

„Saga utanríkisþjónustunnar er samofin sögu lýðveldisins. Það urðu kaflaskil þegar Alþingi ákvað að Ísland skyldi taka utanríkismálin og alla landhelgisgæslu í sínar hendur þegar Danmörk var hernumin í apríl 1940,“ segir Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins. „Kynslóðin sem stofnaði lýðveldið vissi að utanríkisþjónustan, þar á meðal sendiskrifstofurnar, voru holdtekning fullveldis Íslands. Aðrar þjóðir hafa komist að sömu niðurstöðu, meðal þeirra nýfrjáls ríki víða um heim allt fram á síðustu ár. Öll hafa þau byrjað á því að stofna utanríkisþjónustur og opna sendiskrifstofur.“

Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að taka utanríkismál í eigin hendur 10. apríl 1940 bar að hluta til að með óhefðbundnum hætti eins og lesa má um í pistli sem birtur hefur verið á afmælisvefnum. Aðstæður þá voru, rétt eins og nú, ekki síður fordæmalausar. Á grundvelli sambandslagasamningsins frá 1918 fóru Danir með íslensk utanríkismál í umboði Íslendinga, en Íslendingar tóku þau í sínar hendur eftir hernám Þjóðverja á Danmörku þann 9. apríl 1940.

Í ár verður þess einnig minnst að hundrað ár eru liðin frá því að sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn, fyrsta sendiráð Íslands, var opnað, í kjölfar þess að Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Af því tilefni hafa sérstaklega verið ritaðir pistlar sem tengjast því. Annar þeirra fjallar um Önnu Stephensen sendiráðsritara. Hún var fyrsta íslenska konan sem öðlaðist diplómatísk réttindi en hún átti eftir að verða einn reyndasti starfsmaður utanríkisþjónustunnar og starfaði við sendiráðið frá 1929 til 1972. Hinn fjallar um húsnæðismál sendiráðsins frá upphafi starfsemi þess en Sveinn Björnsson, fyrrum forseti Íslands og fyrsti sendiherra Íslands, var ekki ánægður með fyrstu húsakynni sendiráðsins og lýsti þeim sem „nokkurs konar bragga“.

Á afmælissíðunni gefur einnig að líta ítarlegan pistil um gjafir íslenska ríkisins til Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins, forláta fundarhamra eftir myndhöggvarana Ásmund Sveinsson og Ríkharð Jónsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki