fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fréttir

Landsbankinn fær ekki viðbótargreiðslur frá hópnum sem keypti í Borgun

Bankinn á von á milljarðagreiðslu vegna fyrirvara við sölu á 38% hlut í Valitor – Borgun og Valitor fá vel á annan tug milljarða við sölu á Visa Europe

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 20. janúar 2016 15:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hópur fjárfesta og stjórnenda í Borgun, sem keyptu 31,2% hlut í greiðslukortafyrirtækinu af Landsbankanum í árslok 2014, munu hagnast umtalsvert við yfirtöku Visa International Service Association (Visa Inc.) á Visa Europe. Landsbankinn staðfestir í svari til DV að bankinn hafi ekki gert neina fyrirvara um að hann fengi viðbótargreiðslu vegna sölu á Visa Europe þegar bankinn seldi hlut sinn í Borgun í nóvember 2014. Landsbankinn kemur hins vegar til með að fá milljarðagreiðslu vegna fyrirvara um viðbótargreiðslu sem bankinn samdi um þegar hann seldi 38% eignarhlut sinn í Valitor til Arion banka í desember 2014 fyrir 3,6 milljarða.

Fullyrt er að salan geti fært Borgun og Valitor, helsta samkeppnisaðila Borgunar, samtals vel á annan tug milljarða króna en Borgun hóf að gefa út Visa-kort af miklum krafti í útlöndum eftir að salan á hlut Landsbankans í fyrirtækinu gekk í gegn. Ekki liggur endanlega fyrir hversu há upphæð mun falla í skaut hluthafa Borgunar og Valitor við kaup Visa Inc. á Visa Europe en gert er ráð fyrir því að þeir útreikningar muni liggja fyrir á öðrum ársfjórðungi, að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins um málið í morgun. Forstjóri Borgunar segist hins vegar telja að hlutdeild Valitor verði mun meiri en Borgunar en hlutur fyrirtækjanna er reiknaður sem hlutfall af heildarumsvifum þeirra fyrirtækja í Evrópu sem gefa út kortin.

Ef greiðslan til Borgunar mun til dæmis verða um þrír milljarðar króna þá er ljóst að hlutdeild fjárfestahópsins í þeim verðmætum mun nema um milljarði króna. Hópurinn samanstóð meðal annars af Stálskipi, Einari Sveinssyni, fjárfesti og föðurbróður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, og Óskari Veturliða Sigurðssyni, fjárfesti og núverandi stjórnarmanni Borgunar.

Visa International, sem er bandarískt fyrirtæki, tilkynnti um kaupin á Visa Europe í nóvember á liðnu ári og nemur kaupverðið 21,2 milljörðum evra, jafnvirði ríflega þrjú þúsund milljarða íslenskra króna. Búist er við að kaupin gangi í gegn á allra næstu mánuðum.

Fjárhæðin sem menn eru að fá út úr þessu, bæði við og Borgun og Valitor og þar með Íslandsbanki og Arion, hún kemur okkur á óvart. Við munum fá meira en við áttum von á."
Steinþór Pálsson Fjárhæðin sem menn eru að fá út úr þessu, bæði við og Borgun og Valitor og þar með Íslandsbanki og Arion, hún kemur okkur á óvart. Við munum fá meira en við áttum von á."

Sáum ekki útrásina fyrir

„Þegar fyrirtæki eða einstaklingar vilja selja hlutabréf, er alltaf vafamál hvenær sé rétt að selja þau. Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur hækkað um það bil 50% frá því um mitt ár 2014 þegar við vorum að semja um söluverðið á hlutnum í Borgun. Það voru örugglega ekki allir sem sáu þessa hækkun fyrir. Við sáum heldur ekki fyrir að útrás Borgun og velgengni með Visa-kort, eftir að við seljum, myndi ganga svona vel, enda hafði Borgun aðallega verið með Mastercard-kort. Með sölunni á Borgun fengum við reiðufé og gátum notað það í okkar rekstur sem er mjög arðsamur,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, í samtali við DV.

Eins og komið hefur fram seldi Landsbankinn 31,2 prósenta hlut í Borgun á tæpa 2,2 milljarða króna í nóvember 2014. Stjórnendur hans voru í kjölfarið gagnrýndir fyrir að hafa ekki boðið eignina út í opnu söluferli, og selja hana á verði sem hafi verið of lágt miðað við raunverulegt virði hlutarins, en íslenska ríkið á 98% í bankanum. Fjölmiðlar og aðrir hafa síðan þá ítrekað fullyrt að Eignarhaldsfélagið Borgun slf., sem er eins og áður segir meðal annars í eigu Stálskipa og Einars Sveinssonar, hafi keypt öll 31,2 prósentin. Í tilkynningu sem Landsbankinn sendi frá sér 25. nóvember síðastliðinn kom fram að eignarhaldsfélagið og félag á vegum stjórnenda Borgunar, BPS ehf., hefðu keypt hlut bankans í greiðslukortafyrirtækinu. Eignarhaldsfélagið keypti 24,96% en BPS 6,24%, eins og DV hefur bent á. Í dag nemur hlutur Eignarhaldsfélagar Borgunar 29,19% en hlutur BPS 5%, að því er fram kemur á vefsíðu Borgunar.

„Munum fá meira en við áttum von á“

„Árið 2014, þegar við erum í þessum viðræðum, þá lágu fyrir áætlanir Borgunar um að auka verulega erlenda starfsemi sína sem er í eðli sínu mjög áhættusöm eins og útrás íslenskra fjármálafyrirtækja kennir okkur. Einnig lentu kortafyrirtæki í vandræðum erlendis fyrir um tíu árum síðan. Gott og vel, við horfðum til þessara áætlana þeirra um vöxt til framtíðar og allt hafði þetta áhrif á verðmat og samningaviðræður um sölu á þessum hlut okkar í Borgun. Við fengum þannig hlutdeild í velgengni þeirra og vexti eftir að við seldum. Við vorum með mjög lítil viðskipti við Borgun og samkeppnisyfirvöld lögðu mjög hart að bönkunum að aðeins einn banki væri eigandi í kortafyrirtækjunum. Við litum svo á að við, sem minnihlutaeigandi og með mjög takmarkaða aðkomu að félögunum í samanburði við hina bankana, yrðum að selja. Við tókum ákvörðun um að selja og við litum til þeirra áætlana um vöxt erlendis sem hafði þá áhrif á söluverðið til hækkunar. Visa-hlutinn er tryggður í gegnum Valitor og söluna til Arion banka. Fjárhæðin sem menn eru að fá út úr þessu, bæði við og Borgun og Valitor og þar með Íslandsbanki og Arion, hún kemur okkur á óvart. Við munum fá meira en við áttum von á,“ segir Steinþór.

Fram kom í tilkynningu Landsbankans vegna sölu á 38% hlut bankans í Valitor að til viðbótar myndi Arion banka greiða Landsbankanum viðbótargreiðslu fái Valitor greiðslur frá Visa Europe vegna valréttar sem í gildi er milli Visa Europe og Visa Inc. í Bandaríkjunum. „Væntingar eru um að viðbótargreiðslan gæti numið verulegum hluta af verðmæti hlutafjár Landsbankans í Valitor Holding hf. komi til hennar,“ sagði í tilkynningunni.

800 milljóna arðgreiðsla

Nokkrum mánuðum eftir að fjárfestahópurinn keypti hlut Landsbankans í Borgun var samþykkt á hluthafafundi greiðslukortafyrirtækisins að greiða eigendum 800 milljónir króna í arð vegna rekstur félagsins á árinu 2014. Var þetta í fyrsta sinn síðan árið 2007 sem greiddur var arður út úr félaginu.

Fjárfestarnir og stjórnendur Borgunar, sem höfðu keypt 31,2% hlut Landsbankans á 2,2 milljarða í nóvember 2014, fengu því í sinn hlut um 250 milljónir króna.

Hagnaður Borgunar árinu 2014 nam 1,4 milljörðum króna og eigið fé félagsins var um fjórir milljarðar króna.

„Samkvæmt okkar upplýsingum er sá hlutur sem Borgun fær fyrir kaup Visa Inc. á Visa Europe að langmestu leyti tilkominn vegna erlendrar starfsemi Borgunar eftir að Landsbankinn seldi sinn hlut í fyrirtækinu. Borgun hafði sögulega séð verið fyrst og fremst Mastercard-fyrirtæki. Allur þessi samningur erlendis snýst um Visa-viðskiptin. Hugsunin hjá Visa Inc. er að halda bönkunum sem eru með tengslin við korthafa sem mest inni í þessu. Fyrirtækið vill horfa til framtíðarviðskipta og hvað kemur endanlega út úr þessu. Það verður einhver greiðsla núna og svo verður einhver greiðsla í framtíð,“ segir Steinþór.

Hvað áætlar Landsbankinn að fyrirtækið fái út úr þessum kaupum Visa Inc. á Visa Europe í nóvember í fyrra?

„Þetta hleypur á milljörðum króna en ég get ekki svarað því nákvæmlega. Við munum birta 25. febrúar og þá ætlum við að vera komin með góða sýn á þetta. Þá munum við upplýsa um það. Árið 2014 vissi enginn hvort eða hvenær. Visa Europe var þá nýbúið að skipta um forstjóra og þar vildu menn reyna að hressa upp á Visa Europe. Síðan fór boltinn að rúlla núna í haust eða um ári eftir að við seldum Borgun.“

„Vonandi verður þetta sem allra mest“

Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, segir í samtali við DV að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki verið upplýstir um hversu mikið það mun á endanum fá vegna sölunnar á Visa Europe. Morgunblaðið greindi í morgun frá mögulegum áhrifum sölunnar á Borgun og Valitor. Þar sagði Haukur að hlutur fyrirtækjanna yrði reiknaður sem hlutfall af heildarumsvifum þeirra fyrirtækja í Evrópu sem gefa út kortin.

„Þetta er í ferli en við vitum ekki hvað við fáum á endanum og því eru þetta algjörar getgátur. Borgun er algjört kríli miðað við marga aðra hluthafa og ég get ýmindað mér að Valitor séu miklu miklu stærri en við í þessu. Þetta skýrist ekki fyrr en á öðrum ársfjórðungi. Ef þú hugsar um hagnaðinn á Visa í Evrópu og horfir á þessar tölur þá er ekki hægt að skilja hvernig menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að kaupa þetta á þessu verði,“ segir Haukur í samtali við DV og heldur áfram:

„En vonandi verður þetta sem allra mest. Okkur Íslendingum veitir ekki af.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Landlæknir í stríð við Persónuvernd og gerir alvarlegar athugasemdir við starfshættina

Landlæknir í stríð við Persónuvernd og gerir alvarlegar athugasemdir við starfshættina
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Jón Steinar studdi Arnar Þór en er búinn að skipta um skoðun

Jón Steinar studdi Arnar Þór en er búinn að skipta um skoðun
Fréttir
Í gær

Norska morðgátan sem leysist líklega aldrei – Hver skrifaði bréfið sem var í rauða stólnum?

Norska morðgátan sem leysist líklega aldrei – Hver skrifaði bréfið sem var í rauða stólnum?
Fréttir
Í gær

Biðla til fólks að hætta að koma með snáka á spítala – Tefur fyrir og hræðir starfsfólkið

Biðla til fólks að hætta að koma með snáka á spítala – Tefur fyrir og hræðir starfsfólkið