fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Eyjan

Í gömlu húsi á tíma tveggja pesta – 1918 og 2020

Egill Helgason
Mánudaginn 16. mars 2020 01:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég sit hérna í bæ þar sem spænska veikin gekk yfir fyrir 102 árum. Í þetta langan tíma hefur ekki geisað svo hrikaleg farsótt. Það má með sanni segja að mín kynslóð hafi lifað öruggt æviskeið. Húsið sem ég bý í stóð hérna á tíma spænsku veikinnar. Mér finnst líklegt að einhverjir í húsinu hafi veikst – kannski hefur einhver dáið? Ég veit það ekki.

Nú er komin önnur farsótt, við vitum ekki enn hvernig hún mun þróast eða hvaða varnir finnast við henni. Ólíkt því sem var í spænsku veikinni kemur ótalmargt fólk til Íslands og erfitt að rekja ferðir allra – spænska veikin barst hingað með farþegaskipinu Botníu sem sigldi frá Kaupmannahöfn. Hún breiddist óstjórnlega út, að fáum vikum liðnum er talið að meira en 60 prósent af íbúum Reykjavíkur hafi veikst. Næstum 500 manns létust í faraldrinum.

Sitjandi í svona gömlu húsi hugleiðir maður muninn á aðstæðunum nú og þá. 1918 voru sama og engar fréttir, þegar pestin var sem skæðust komu blöðin ekki út. Fólk þurfti að reiða sig á munnmæli. Nú höfum við offramboð af fréttum, skýringum, skoðunum og vangaveltum. Manni verður eiginlega nóg um, þarf helst að loka á eitthvað af þessu til að halda sönsum.

Það var enginn hiti í húsum nema sá sem fékkst með því að brenna kol eða mó – rafmagn var ekki komið í hús og ekki heitt vatn á krana, víða ekki heldur kalt vatn. Svoleiðis hefur það verið hérna í húsinu. Fyrir stuttu lokuðu starfsmenn Veitna fyrir heita vatnið hér í hverfinu og opnuðu svo aftur eftir viðgerð. Við þetta hefur þrýstingurinn aukist mjög svo liggur við að maður kafni úr hita ef hækkað er í ofnum.

Íbúar landsins voru býsna veiklaðir. Á síðustu árum heimsstyrjaldarinnar var skortur á ýmsum nauðsynjum – veturinn áður hafði verið sá harðasti í manna minnum – og það var gos í Kötlu. Nú stormar fólk í stórverslanir til að birgja sig upp af klósettpappír. Á þeim tíma voru vatnssalerni fágæt og wc-pappír þekktist varla.

Afþreying var lítil utan bækur – eins og sagði áður komu blöð ekki út. Bíó voru vinsæl á þeim tíma eins og Sjón skrifar um í Mánasteini, en þeim var líka lokað.Nú höfum við aðgang að slííkri ofgnótt af afþreyingu að um það hefur verið búið til um það hugtak á frönsku, paralysie du choix – vandamálið er að velja úr þessu öllu.

Svona má lengi telja. Á þessum tíma höfðu menn lítinn skilning á sjúkdómum en þeir gátu þó gripið til aðgerða sem virkuðu eins og að loka Holtavörðuheiði til að verja Norðurland. En fólk lá fárveikt og dó á heimilum sínum og eru afar raunalegar sögur af því. Þau voru eins og áður segir köld og birgðastaða ekki góð. Pestin lagðist mest á ungt og hraust fólk og börn, þeir sem eldri voru virtust hafa einhvers konar ónæmi – ólíkt því sem nú er þegar gamalt fólk er í mestri hættu.

Miðbæjarskólanum sem er hérna rétt hjá var breytt í bráðabirgðasjúkrahús. Þau Thor Jensen og Margrét Þorbjörg kona hans opnuðu súpueldhús til að seðja hungur fátæks fólks. Ég held það hafi verið á Skúlagötu.. Nú búum við fjölskyldan svo  vel að hafa fulla frystikistu af mat hér inni í geymslu, ágætar birgðir af þurrvöru og kassa með vítamínum, en maður er snortinn þegar maður les um fólk sem býðst til þess af sjálfsdáðum að koma mat og nauðsynjum til er í áhættuhópum og getur trauðla farið út úr húsi.

Nú óttast menn mjög efnahagskreppu vegna covid 19. Eftir spænsku veikina kom í sjálfu sér ekki kreppa, Evrópa var hvort eð er í býsna slæmu ástandi eftir heimsstyrjöldina, það brutust út byltingar og alls kyns óáran. En hagkerfið reisti sig við og við tóku the roaring twenties – þangað til það allt leið undir lok í heimskreppunni miklu.

Gamla húsið sem ég bý í hefur upplifað þetta allt – ef þannig má komast að orði um hús – og þótt ég sitji hér í stofu og skrifi þetta er það flest mér hulið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands
Eyjan
Fyrir 1 viku

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður