Í umfjöllun Sky um málið kemur fram að íbúar hafi þurft að læsa sig inni með börn sín til að forðast árekstra við flóðhestana. Einn íbúinn, Giver Cardona, varð fyrir því fyrr á árinu að aka mótorhjóli sínu á flóðhest morgun einn. Hann segist nú aka mjög hægt og gæta vel að sér í öllum beygjum. Ekki hafa borist fregnir af því að flóðhestarnir hafi ráðist á fólk en íbúar óttast að það muni gerast á endanum þar sem dýrunum hefur fjölgað mikið.
Þrátt fyrir að flóðhestar séu nánast eingöngu plöntuætur þá eru þeir eitt árásargjarnasta dýr jarðarinnar. Þeir geta bitið litla báta í tvennt og þeir verða um 500 Afríkubúum að bana árlega. Vísindamenn í Kólumbíu segja að flóðhestarnir ógni einnig gróðri og dýralífi á svæðinu. Síðar á árinu á að reyna að gera þá ófrjóa til að koma í veg fyrir frekari fjölgun þeirra. Óttast er að ef ekkert verður að gert muni fjöldi flóðhestanna fjórfaldast á næsta áratug.