fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024

Konur og krínólín

Leikhúslistakonur 50+ með yfirlitssýningu í Iðnó um konur og kvenfatnað

Kolbrún Bergþórsdóttir
Sunnudaginn 3. september 2017 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sýningin Konur og krínólín er engin venjuleg tískusýning. Að henni stendur hópurinn Leikhúslistakonur 50+ en þessi margumrædda sýning hefur aðeins farið á fjalirnar einu sinni – í Iðnó á þjóðhátíðardaginn 2017.

Ragnheiður Eiríksdóttir ákvað að hitta tvær konur úr hinu litríka leikfélagi og fá að heyra allt um tilurð sýningarinnar. Kolbrún Halldórsdóttir sat með kaffibolla og beyglu á Kaffitári þegar blaðamann bar að garði.

„Magga Rósa, sem rak Iðnó í hátt í tvo áratugi, var alltaf að leita að atriðum sem hæfðu húsinu og þekkir auðvitað ógrynni af fólki. Í gegnum hana hafa fjölbreyttir hópar komið að starfi hússins, meðal annars stór hópur leikhúslistakvenna sem eru í fullu fjöri þótt þær hafi náð þessum virðulega aldri 50+. Þarna kraumaði einhver spennandi kemistría og árið 2014 byrjuðum við að hittast reglulega. Fyrst var þetta óformlegt spjall en við höfðum þann háttinn á að ein úr hópnum sagði frá sér og starfsævi sinni hverju sinni. Það er bitur sannleikur að konur detta talsvert úr starfi í leikhúsi, svo þótt við þekktumst innbyrðis vissum við ekki hvað hver og ein hafði verið að bralla í seinni tíð. Svo kom þetta af sjálfu sér – varð svo fallega organískt.“

Upprunalegi hópurinn lét orðið berast og fleiri sviðslistakonur slógust í hópinn. „Núna erum við formlegt félag, með stjórn og lög og hvað eina. Við erum konur úr öllum lögum sviðslistanna – breiður og sterkur hópur. Við höfum sett ýmislegt á svið – leiklestra, ljóðadagskrár og sett upp smærri leikverk. Hver uppsetning veltur á því hverjar eru lausar þá og þegar, og hverjar hafa áhuga á að koma á svið í Iðnó.“

Vilborg Halldórsdóttir sýnir innlifun á sviði Iðnós.
Glæsileiki Vilborg Halldórsdóttir sýnir innlifun á sviði Iðnós.

Spuni heldri kvenna

Helga Björnsson tískuhönnuður er ein félagskvenna, enda hefur hún unnið talsvert við búningahönnun í leikhúsi. Hjá henni kviknaði hugmynd um að setja á svið eitthvað sem tengdist konum og tísku. „Edda Björgvins fór að vinna með henni og kemistrían á milli þeirra varð að hugmynd um yfirlitssýningu um konur og kvenfatnað í gegnum tíðina. Við könnuðum hvaða konur innan hópsins hefðu tíma og áhuga og úr varð að 20 sviðslistakonur unnu saman að verkinu þegar allt er talið.“

Sýningin Konur og krínólín fór á svið í Iðnó á 17. júní sem hluti af hátíðarhöldum Reykjavíkurborgar og óhætt er að segja að hún hafi slegið í gegn. Áhorfendur eru leiddir á litríkan og fjörugan hátt gegnum áratugina frá 1890 til 1990.

„Helga kom með sitt stórkostlega búninga- og skartgripasafn í Iðnó, og fékk með í liðið flottasta „dresser“ og saumakonu Þjóðleikhússins. Fljótlega fórum við að vinna verkið í spuna – við erum svona Improv Ísland eldri deild! Úr þessu varð 45 mínútna löng sýning sem spannar kventísku gegnum aldirnar. Við ákváðum að fara ekki lengra en út níunda áratuginn – enda var eitístískan toppurinn á tilverunni og lítið hefur gerst síðan þá.“

Nú kemur Vilborg Halldórsdóttir aðvífandi, fersk og hress eftir hestaflutninga. Hún bendir okkur góðfúslega á að sólin skíni úti og hitinn sé í 17 stigum. Við ákveðum að setjast út og halda spjallinu áfram.

Töfrum líkast

„Edda Björgvins er límið í sýningunni,“ segir Kolbrún. „Hún semur allan textann og leggur til húmorinn og framvinduna. Að auki tók hún að sér leikstjórnarhlutverkið. Ásdís Magnúsdóttir ballerína er kóreógrafinn, og Elín Edda Árnadóttir tók að sér að skreyta sviðið. Þetta eru bara örfáar af þessum frábæra hóp þar sem allar leggja eitthvað til.“

Vilborg vill kalla Konur og krínólín tískuuppistand, „eða einhvers konar karnival. Það er svo mikil gleði og skemmtun í sýningunni, og Edda er auðvitað stórkostleg sem sögumaðurinn. Hún er okkar besta gamanleikkona og einn besti uppistandari sem þjóðin hefur átt. Maður finnur hvernig stemningin breytist þegar farið er í gegnum tímabilin, þegar maður skiptir um föt og um leið breytist tónlistin og hreyfingarnar. Svo er maður bara að pissa á sig af hlátri allan tímann!“

Vilborg leggur áherslu á að vinnan með hópnum sé dásamleg og nefnir sérstaklega Helgu Björnsson. „Hvernig hún tíndi spjarir smám saman á okkur á æfingum og maður stóð skyndilega uppi eins og listaverk. Í tísku skiptir máli að vera með góðan smekk og hún hefur hann sannarlega.“

Kolbrún samsinnir þessu og lýsir því hvernig saumakonurnar og „dresserarnir“ frömdu ýmsa galdra til að láta fötin passa á líkama leikkvennanna. „Ég fór til að mynda í allt of stóran rauðan pallíettukjól, alveg dragsíðan. Svo setur hún Ingveldur einhverjar teygjur á þrjá staði og allt í einu smellpassar hann á mig.“

Konur, korsett og andardráttur

Talið berst að því hvernig tíska á ólíkum tímum hefur áhrif á líf kvenna og getur falið í sér pólitíska merkingu.

„Já, það var merkilegt með tímann þegar konur voru í stífum korsettum og gátu ekki andað,“ bætir Kolbrún við. „Það er heilmikil pólitík í því. Svo fóru konur að gera kröfu um að geta andað og klæddu sig úr korsettunum. Þó svo að við höfum ákveðið að hafa sýninguna létta og leikandi er þarna ákveðinn pólitískur þráður sem gefur henni dýpt. Sýningin er þannig samfélagsleg líka, ekki bara sjónræn.“

„Hugsið ykkur bara charleston-tímabilið,“ segir Vilborg, „the roaring 20’s – það var þvílík bylting og pönk og frelsi. Í fyrsta sinn gátu konur sýnt að þær væru kynverur.“

„Í fyrsta sinn gátu konur sýnt að þær væru kynverur,“ segir Vilborg Halldórsdóttir.
Charlestone-tímabilið „Í fyrsta sinn gátu konur sýnt að þær væru kynverur,“ segir Vilborg Halldórsdóttir.

„Tíska er líka skúlptúr“

En þetta er engin venjuleg tískusýning, því konurnar köfuðu líka í tónlist og hreyfingar hvers tímabils. Kolbrún og Vilborg tóku að sér að leggjast yfir Youtube og finna lög og dansspor sem rímuðu við hvert tímabil. „Eftir að hlusta lon og don komum við svo til Ásdísar ballerínu með hugmyndirnar okkar, og hún setti upp ramma sem við gátum hreyft okkur innan,“ útskýrir Kolbrún.

„Tíska er líka skúlptúr,“ segir Vilborg, „visst rými utan um líkamann og ákveðin dansspor ríma svo við klæðnað hvers tíma. Maður finnur af hverju rokkið kom með ákveðin spor – pilsin voru jú ástæðan. Svo er ég stolt af því að við skyldum ákveða að hafa eins mikla tónlist og mögulegt var eftir konur. Það gefur okkur ennþá meiri kraft.“

Semur textann og leggur til húmorinn og framvinduna.
Edda Björgvinsdóttir Semur textann og leggur til húmorinn og framvinduna.

Eins og áður sagði voru viðbrögð við sýningunni 17. júní feikigóð og fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna. Eftir lok sýningarinnar fóru listakonurnar fram í sal og blönduðu geði við áhorfendur. Kolbrún segir það hafa verið ómetanlegt að finna þessi sterku viðbrögð eftir allan hláturinn, hitann og svitann. „Þarna var heill saumaklúbbur kvenna um sjötugt, sem réðu sér vart fyrir kæti. Þær sögðust sjá sjálfar sig í svo mörgum atriðanna. Svo kom þarna til mín kona sem hafði lengst af búið erlendis. Hún þurfti að faðma mig í bak og fyrir og sagði mér svo fallega að orkan sem við hefðum framkallað á sviðinu væri hreinlega ekki til neins staðar annars staðar í heiminum, þessi hráa kvenorka. Það kom í ljós að þarna var komin engin önnur en Janis Carol – söngkona sem var ein af stjörnunum okkar þegar við vorum ungar. Þarna fékk ég staðfest að það sem við lögðum í þessa litlu sýningu var að segja eitthvað meira og dýpra en við höfðum áttað okkur á sjálfar,“ segir Kolbrún.

„Já, talandi um kvenorkuna, hvað er eiginlega að í íslensku leikhúsi, af hverju eru þessar konur ekki sjáanlegar í meira mæli á sviðum leikhúsanna?“ spyr Vilborg. „Við erum flottar og háværar og dönsum og erum í frábæru formi. Það er í það minnsta ekki hægt annað en að taka eftir okkur.“

Tekur sig vel út í rauðum pallíettukjól.
Kolbrún Halldórsdóttir Tekur sig vel út í rauðum pallíettukjól.

Blaðakona skýtur inn spurningu um hvort túristaútgáfu sé að vænta, eða hvort þær hyggi á fleiri sýningar en þessar þrjár í september. Óvissan með framtíð Iðnó setur dálítið strik í reikninginn, því Leikhúslistakonur 50+ eiga sér engan annan fastan samastað.

Vilborg harðneitar því að túristaútgáfa verði sett á fjalirnar en það eru líka nokkur ljón í veginum.

Kolbrún bendir á að verk með svona mörgum konum úr mismunandi áttum sé alls ekki auðvelt í framkvæmd. „Fjöldinn er dálítil bremsa, því allar þurfa jú að hafa tíma og þetta er ekki launuð vinna fyrir neina okkar. Það er leiðigjarnt heilkenni á listum hversu mikið við gefum vinnuna okkar og getum það bara að ákveðnu marki. Flestar okkar eru komnar með upp í kok af slíku. Samt kemur fyrir að maður dettur inn í hóp sem verður svona ótrúlega skemmtilegur, og þá er hægt að gera undantekningu með bros á vör.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Segir útspil Hermanns hafa komið sér á óvart – „Mér fannst það sérstakt“

Segir útspil Hermanns hafa komið sér á óvart – „Mér fannst það sérstakt“
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Jákvæð niðurstaða nýrrar meðferðar við Parkinson

Jákvæð niðurstaða nýrrar meðferðar við Parkinson
Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Telur að þetta hafi aftrað Strákunum okkar á stórmótum – „Til háborinnar skammar“

Telur að þetta hafi aftrað Strákunum okkar á stórmótum – „Til háborinnar skammar“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Treyju Manchester United fyrir næsta tímabil lekið og stuðningsmenn eru gáttaðir

Treyju Manchester United fyrir næsta tímabil lekið og stuðningsmenn eru gáttaðir
Fókus
Fyrir 18 klukkutímum

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Svona hyggst Barcelona afla hátt í 35 milljarða í sumar – Manchester United gæti hjálpað til

Svona hyggst Barcelona afla hátt í 35 milljarða í sumar – Manchester United gæti hjálpað til