Tónlistarkonan Ragnhildur Gísladóttir er gestur Loga í þættinum Með Loga í Sjónvarpi Símans Premium í kvöld. Mbl.is birti stutta klippu úr þættinum fyrr í dag þar sem Ragga lýsir því hvernig henni leið þegar kærasti hennar, Birkir var viðskiptastjóri hjá Glitni. Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi árið 2014 fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun sem og brotum á lögum um ársreikninga sem sneru að 3,8 milljarða króna láni Glitnis árið 2007 til félags sem var í eigu Birkis.
„Það var eins og ég hefði fengið dóm. Það er bara, þegar fólk er svona tengt, eins og eitt eins og við erum, þá tekur maður þetta bara í hjartað og mér fannst þetta bara af því að ég vissi náttúrlega að þetta væri ekki rétt og ég hélt reyndar að [réttlætið myndi koma fram í hæstarétti] af því að þá myndi málið vera skoðað alveg eins og það var, eða er, og farið í alla sauma og gert upp. En það var ekki gert. Þannig þetta er skilið eftir svona í loftinu,“ segir Ragga.
„Já, maður verður bara svo hissa. Maður bara trúir varla að maður hafi þurft að fara í gegnum þetta. Að hafa þurft að kyngja þessu frá þessari æðstu stofnun ríkisins. Maður bara trúir því ekki.“
Þátturinn er í opinni dagskrá klukkan 20.00 í Sjónvarpi Símans Premium í kvöld.