fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Vilhjálmur spyr hvort þjóðin ætli að sætta sig við þetta enn og aftur: „Við erum soguð inn í þessa spillingar, ógeðfelldu starfshætti“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 13. nóvember 2019 10:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson, annar forseti ASÍ og formaður verkalýðsfélags Akraness, segist sleginn yfir umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um meinta spillingu og mútugreiðslur Samherja í Namibíu.

Hann ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Ætli maður sé ekki bæði lamaður og reiður,“ segir Vilhjálmur í Bítinu. Hann segir mál af þessari stærðargráður koma illa við íslenskt samfélag.

„Mér finnst bara sorglegt til þess að vita að fyrirtæki af þessari stærðargráðu skuli í rauninni gera það að verkum að soga íslenska þjóð og landið okkar inn í svona mál.“ Vilhjálmur tekur fram að enn eigi vissulega eftir að rannsaka málið, en miðað við umfjöllun gærkvöldsins og fyrirliggjandi gögn sé engin ástæða til að draga það í efa að ásakanir um spillingu og mútugreiðslu eigi við rök að styðjast. „Við sem þjóð munum verða fyrir barðinu á þessari umræðu sem mun eiga sér stað í þessum löndum ef þessar fréttir eru allar réttur, sem ég hef engar forsendur fyrir öðru en svo sé.“

Íslendingar telji samfélag sitt siðmenntað, því sé þessi uppljóstrun sérlega sláandi. Mútugreiðslur upp á annan milljarð króna í landi þar sem almenningur hefur átt undir högg að sækja. „Þá setur mann bara hljóðan. Það er bara staðreynd.“

Vilhjálmur minnir á að hann hefur lengi mælt gegn útgerðunum á Íslandi og hvernig aflaheimildir hafa safnast á hendur fárra. Í dag hafi heil byggðarlögin verið lögð í rúst af gráðugum útgerðum og ekki sé lengur sama landslagið og ort var um í laginu Kátir voru karlar.

„Það er skítalykt af málinu“

Framhaldið mun ráðast af niðurstöðum rannsókna, bæði hérlendis og í Namibíu. En einnig mun framhaldið ráðast af viðbrögðum íslensku þjóðarinnar við þessum fréttum.

„Mun íslenska þjóðin sætta sig við þessa hluti? Því það er alveg ljóst að ráðamenn íslensku þjóðarinnar og alþingismenn almennt munu fylgjast vel með hver viðbrögð þjóðarinnar verða við þessu máli,“ segir Vilhjálmur og segir ráðamenn munu stíga öldurnar alfarið út frá þeim viðbrögðum.

Vilhjálmur kveðst taka undir ummæli Drífu Snædal, forseta ASÍ á Facebook í gær, en þar sagði hún:

„Myndin sem Kveikur og Stundin teikna upp er af heimsvaldasinnuðum, gráðugum arðræningjum sem einskis svífast. Körlum sem þykjast samfélagslega ábyrgir hér á landi en gæti ekki verið meira sama um aðstæður þjóðar suður í Afríku. Körlum sem komu í kjölfar vel heppnaðar þróunarsamvinnu og ryksuguðu upp auðlindir í eigin þágu, höguðu sér eins og svívirðilegustu nýlenduherrar. Þróunarsamvinnunni var hætt vegna hrunsins sem varð einmitt vegna svona hegðunar. Ógeðslegt!“

Nema Vilhjálmur telur ekki rétt að kynbinda umræðuna, enda sé græðgi ekki bundin við kyn þó svo að í þessu tiltekna máli sé um karlmenn að ræða.

Hann segir að ASÍ beri skylda til að bregðast við málinu.  Varðandi afleiðingar á Samherjamenn, treysti Vilhjálmur sér ekki til að tjá sig að svo stöddu.

„Ég held að það borgi sig ekki fyrir mann að segja það sem manni í brjósti býr eftir þennan þátt. Maður verður bara að leyfa dögunum að líða svo menn nái betur áttum“

Það sé þó á forræði íslensku þjóðarinnar að láta þetta mál ekki falla í gleymskunnar dá.

„Við sem þjóð í heild sinni, við erum soguð inn í þessa spillingar ógeðfelldu starfshætti sem fyrirtækið virðist hafa ástundað þarna erlendis og orðið Ísland mun hljóma þegar þetta mál verður fjallað um vítt og breitt um heiminn og það er eitthvað sem mér hugnast ekki.“

Samherji gaf út yfirlýsingu í gær þar sem ábyrgðinni á mútugreiðslum var alfarið varpað á uppljóstrarann Jóhannes Stefánsson. Vilhjálmur telur þessi viðbrögð benda til þess að Samherji sé ekki að fara að axla ábyrgð. „Þessi fyrstu viðbrögð frá Samherja, að ætla að skjóta sendiboðann, […] finnst mér ekki lofa neitt rosalega góðu“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að