„Við stöndum okkur almennt vel í lýðheilsu og hér verðum við að stíga varlega til jarðar. CBD er umdeilanlegt,“ segir Lára G. Sigurðardóttir, læknir og pistlahöfundur Fréttablaðsins, í bakþönkum blaðsins í dag.
Þar skrifar Lára um kannabisdíól, eða CBD, sem hefur verið nokkuð í umræðunni að undanförnu. Þingsályktunartillaga var lögð fram á Alþingi fyrir skemmstu þess efnis að heilbrigðisráðherra sjái til þess að CBD-vörur verði gerðar aðgengilegar hér á landi og fari í almenna sölu.
Í tillögunni segir meðal annars að helstu virku efni kannabisplantna séu THC, sem er vímugjafi, og CBD sem er ekki vímugjafi. Í greinargerðinni segir meðal annars að bæði efnin hafi læknisfræðilegt notagildi og þau megi nota í ýmsum tilgangi. Þannig hafi CBD verið notað sem fæðubótarefni í matvæli, snyrtivörur og lyf.
„En vegna skilgreiningar á kannabisi og afleiðum þess sem ávana- og fíkniefnis, eða ávana- og fíknilyfs þegar um er að ræða tilbúin lyf, eru vörur sem innihalda THC eða CBD lyfseðilsskyld, eftirritunarskyld og Z-merkt. Slík lyf verða því aðeins fengin gegn ávísun læknis með sérfræðimenntun. Í ljósi þess að CBD er ekki vímugjafi eru engin rök sem standa til þess að það skuli flokkað sem ávana- og fíkniefni eða lyf,“ segir ennfremur.
Lára fjallar um þetta í grein sinni í dag og gerir athugasemd við þá fullyrðingu að CBD hafi „óumdeilanlegt notagildi“ eins og það er orðað.
„Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er hið eina óumdeilanlega notagildi CBD að draga úr áhrifum sjaldgæfrar flogaveiki og þar þarf læknir að vera með í ráðum. Það eru reyndar vísbendingar um að CBD geti hjálpað við kvíða, svefnleysi og verkjum en þetta hefur enn ekki verið staðfest á óumdeilanlegan hátt.“
Lára segir að vissuelga sé kannabisdíól ekki vímugefandi en ekki megi gleyma því að það er framleitt úr kannabisplöntu sem skaðar heila ungs fólks. Því sé ekki hægt að líkja því saman við lýsi eða önnur fæðubótarefni sem hafa engin tengsl við svo skaðleg efni.
„Í Bandaríkjunum er ekkert eftirlit með innihaldi CBD-neysluvara og eru næstum 70% þeirra rangmerkt. Auk þess hefur vímugjafinn THC mælst oftar en ekki í fólki sem taldi sig einungis vera að neyta CBD. Hver ætlar að sjá um eftirlitið á Íslandi – enginn!“
Lára bendir á að Íslendingar standi sig almennt vel í lýðheilsu og hér þurfi að stíga varlega til jarðar. „CBD er umdeilanlegt. Ef við viljum leyfa CBD til að meðhöndla verki, kvíða og svefnleysi, þá er skynsamlegt að setja það á markað sem lyf enda tilgangurinn að meðhöndla sjúkdómskvilla. Og í stað þess að reyna að normalísera kannabisneyslu á Íslandi væri virðingarverðara ef umræddir þingmenn legðu púður sitt í að auðvelda fólki aðgang að sjúkraþjálfurum, læknum og sálfræðingum til að ráðast að rótum vandans í stað þess að hvetja fólk til að deyfa sig með CBD.“
Þó nokkur umræða hefur þegar farið fram um CBD á Alþingi og er Ólafur Þór Gunnarsson, læknir, þingmaður VG og varaformaður velferðarnefndar, einn þeirra sem hvatt hefur til þess að farið sé varlega.
„Ég er bara þeirrar skoðunar að þangað til að við erum með meiri upplýsingar um CBD í læknisfræðilegum tilgangi, þá eigum við að fara varlega og stíga eitt skref í einu,“ sagði Ólafur eins og Morgunblaðið greindi frá þann 25. október.