Pálmar Örn Guðmundsson kynntist salsa
Glæsileg salsahátíð, Midnight Sun Salsa, er nýafstaðin í Reykjavík. Hápunktur hennar var salsadanskeppni sem haldin var á laugardagskvöldið og meðal þeirra sem kepptu þar er Pálmar Örn Guðmundsson sem kynntist salsa á Kúbu og fór á námskeið hjá Salsa Ísland í kjölfarið.
„Þetta byrjaði þannig að ég ferðaðist til Kúbu þar sem ég var í tíu vikur og ég kynntist salsa þar,“ segir Pálmar Örn. „Þegar ég kom heim aftur þá langaði mig til að læra salsa, af því að ég hef einfaldlega áhuga á dansi.“
Pálmar Örn er afar listhneigður og helgast bæði vinnan og áhugamálin af því, hann kennir börnum í grunnskóla Grindavíkur, hefur samið og æft árshátíðarsýningu með nemendum efri bekkja skólans, þjálfar í fótbolta, málar, spilar og syngur sem trúbador auk þess að dansa salsa.
Pálmar Örn fór fljótlega á byrjendanámskeið hjá Salsa Ísland og er í dag búinn að fara á alls átta námskeið, bæði byrjenda- og framhaldsnámskeið. „Það var örlítið krefjandi fyrst að mæta og þekkja engan og kunna ekki dansinn,“ segir Pálmar Örn. „En það er fljótt að breytast og ég mæli með að fólk fari á námskeið og sérstaklega ef það hefur ekkert verið í dansi áður. Á námskeiðunum þá lærir þú sporin og svo fer maður á danskvöldin í Iðnó til að æfa þau.“
Pálmar Örn segir það töfrum líkast að fara á gólfið og dansa við einhvern með hreyfingum í takti. „Það er ekki skipað fyrir með orðum, heldur leiðir maður dömuna áfram með ákveðnum hreyfingum og bendingum, sem einmitt eru kennd á námskeiðum. Tilgangurinn með danskvöldunum er að æfa sig og verða betri og betri. Það er ekkert mál að mæta einn á þau, maður kynnist fólki gegnum námskeiðin og þá gerist það ósjálfrátt að maður dansar við þau á opnu kvöldunum, svo kynnist maður sífellt fleirum.“
Pálmar Örn keppti í fyrsta sinn á Midnight Sun Salsa og keyrði alls fjórum sinnum í viku til Reykjavíkur, bara fyrir salsað, en hann er búsettur í Grindavík. „Edda valdi hópinn minn í janúar og við slógum öll til. Síðan var samin dansrútína fyrir okkur sem við byrjuðum að æfa núna í maí, þannig að síðustu vikur þá er ég búinn að mæta á þrjár æfingar í viku auk miðvikudagsdanskvöldanna í Iðnó.
Þetta gekk ótrúlega vel og allt small saman þetta kvöld þó að við höfum samt ekki unnið, dómararnir lýstu þó yfir ánægju með atriðið okkar,“ segir Pálmar Örn. En af hverju að dansa salsa? „Mér finnst þetta æðislegt, það er svo mikil gleði og stór hluti af þessu er félagsskapurinn, maður á orðið fjölda vina og þetta er frábær hreyfing.“