

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók tvo ölvaða menn í Austurstræti á þriðja tímanum í nótt. Mennirnir eru grunaðir um þjófnað og fjársvik, en þeir eru sagðir hafa reynt að koma fölsuðum peningum í umferð.
Í skeyti frá lögreglu kemur fram að mennirnir hafi verið vistaðir í fangageymslu lögreglu.
Nóttin var að öðru leyti nokkuð róleg í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tveir voru stöðvaðir í umferðinni vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá stöðvaði lögregla för ökumanns á Sæbraut en ljósabúnaður bifreiðarinnar var í ólagi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.