

Í fylgiriti Fréttablaðsins, Markaðnum, í dag er greint frá því að Arion banki sé að selja sumarhöll, sex herbergja orlofshús í Eyjafirði. Einungis æðstu stjórnendur höfðu afnot af húsinu. Hér fyrir neðan má sjá myndir af húsinu.
Húsið, sem er nánar tiltekið í Hörgársveit, er rúmlega 172 fermetrar og var byggt árið 2004. Arion banki óskar eftir tilboði í eignina en fasteignamat þess nemur 33,6 milljónum króna. Brunabótamatið er hins vegar tæplega 100 milljónir.
Benedikt Gíslason, nýr bankastjóri Arion banka, segir í samtali við Markaðinn að bankinn sé að draga saman seglin. Í vikunni hefur verið umtalað að stutt sé í fjöldauppsagnir starfsmanna bankans. „Við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti. Ef efnahagsreikningurinn dregst saman þá minnka umsvifin að sama skapi,“ er haft eftir Benedikt.
