fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Skorar á stjórnvöld með nýju verkefni

Tómas Valgeirsson
Mánudaginn 16. september 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Telma Huld Jóhannesdóttir útskrifaðist af leiklistarbraut í Fjölbraut í Garðabæ. Eftir það tók við leiklistarnám í París og síðar meir kvikmyndanám í Prag. Telma hefur gert það gott á undanförnum árum í kvikmyndunum Webcam og Eden, en ferill er hennar nánast nýhafinn. Hún er gestur í föstudagsþættinum Fókus og ræðir þar málefni sem eru henni hugleikin, meðal annars mikilvægi listsköpunar, heimsendaáhyggjur og græna kvikmyndagerð.

Þegar Telma er spurð hvort aðdragandi leiklistarinnar eigi sér tengingu við athyglissýki svarar hún því játandi, eða þannig hófst það þegar hún var tólf ára á leiklistarnámskeiðum, stödd á sviði og sá fólk klappa fyrir sér. Hún segir hugarfarið blessunarlega hafa breyst með árunum og hún hefur í dag lært hvernig hún hefur enst í þessu fagi. „Leiklistin er einfaldlega mín leið til að læra á heiminn í kringum mig, auka minn skilning og víkka út hugmyndir. Þetta er þannig í eðli sínu, að maður lærir að setja sig í spor annarra,“ segir Telma.

„Ég á tvær hliðar að mér og önnur er þessi sem finnst þetta geggjað og langar í feril, en svo er hin hliðin sem man alltaf að peningar eru bara uppfinning. Með leiklistinni fann ég veg sem báðar þessar týpur í mér geta lifað með. Þessi týpa sem fær eitthvað út úr því að gera eitthvað alvöru en á sama tíma get ég borgað reikninga.“

Aðspurð hvort leiklistin hafi aukið samkenndina hjá henni svarar hún að ekki hafi verið þörf á slíku. „Ég er týpan sem horfir á fréttir og hágrætur. Samkenndin sem slík hefur kannski ekki aukist mikið en skilningurinn aftur á móti og umburðarlyndi gagnvart því sem ég skil ekki ennþá hefur aukist,“ segir hún.

„Í stað þess að hafa öskrað yfir nýnasistum á Lækjartorgi, sem ég hefði kannski gert fyrir nokkrum árum, þá er ég komin á þann stað að ég vorkenni því fólki. Mér verður illt í hjartanu gagnvart fólki sem er uppfullt af slíku hatri og ég finn til með þeim. Ég velti meira að segja fyrir mér hvort ég hefði átt að fara til þeirra og gefa þeim knús, til að sýna þeim smá ást.“

Nú er það blátt Telma í hlutverki Agú í gamanmyndinni Webcam.

Telma segir að eitt besta dæmið um lærdómskraft fagsins hafi komið þegar hún lék blinda stúlku fyrir lokaverkefni í kvikmyndaskólanum. „Það var geggjað verkefni, því ég hélt að ég hefði enga fordóma gagnvart blindu fólki. Svo komst ég að því að ég var með fullt af fordómum, ekkert illa meintum, en ég var með alls konar fyrirfram ákveðnar hugmyndir,“ segir Telma.

„Síðan í gegnum það að skoða þetta út frá því að reyna eftir fremsta megni að vera í þessum sporum, þá lærði ég hluti sem ég get ekki „aflært“. Nú er þetta eitthvað sem ég veit og mér finnst það mjög gefandi. Rannsóknarvinnan við leiklist er stærsta ástæðan fyrir því sem ég geri.“

Telma við tökur á Eden

 

Ábyrgðin ekki alfarið í höndum neytandans

Síðastliðin tvö ár hefur blundað í Telmu saga sem hana langar að flytja sjálf í kvikmyndaformið. Hún stígur út fyrir þægindarammann og undirbýr stuttmynd sem hún hvort tveggja leikstýrir og skrifar. Áður hefur hún leikstýrt á sviði en þetta mun vera í fyrsta sinn sem hún leikstýrir á tökustað. Hjá Telmu stendur til að tileinka sér svokallaða græna kvikmyndagerð, en umhverfisvernd er henni afar hugleikið málefni.

„Kvikmyndagerð í eðli sínu er óumhverfisvæn, að mörgu leyti. Ég held að fólk sé meira að pæla í þessu en áður og ég held að núna sé rétti tíminn til þess. Það þarf samt sem áður að keyra alls konar trukka til að flytja ljós, ýmiss konar búnað og það er mikið rafmagn og mikil eyðsla sem á sér stað. En það þarf ekki mikið til að laga ýmislegt,“ segir Telma og spyr:

„Hvað get ég gert í mínu til þess að bæði hvetja til hugarfarsbreytingar og líka, meðan á verkefninu stendur, að bæta engu við þetta ástand og gera það verra?“

Að sögn Telmu er stuttmynd hennar jafnframt ákveðin áskorun til stjórnvalda um að grípa til stærri aðgerða en þau hafa verið að gera, til dæmis með því að setja ekki alla ábyrgð á einstaklinginn, að hennar sögn. „Mér finnst of mikil áhersla lögð á að við – neytendur – eigum að breyta þessu, en það er ekki svo einfalt. Þetta þarf að byrja á stærri skala, að mínu mati, og ég vil leggja mitt af mörkum til þess að koma þeim skilaboðum á framfæri – að gera fólk reitt,“ segir hún.

„Með kvikmyndagerð ættum við að endurnýta meira. Það er endalaust til af notuðum fötum og það á ekki að þurfa að kaupa alltaf allt nýtt eða sauma. Ef við þurfum ekki á einhverju að halda, þá þurfum við ekki á því að halda. Það er allt svo tvístrað. Flestir einstaklingar eru í sínu horni og þá verður vandamálið svo óyfirstíganlegt. Þess vegna held ég að stærri reglugerðir séu frekar svarið frekar en að bíða eftir að allir ákveði að verða sjúklega umhverfisvænir og flottir. Eins mikið og mig langar að trúa því, þá sé ég það ekki alveg gerast.“

Peningar eru aðeins uppfinning.

Gagnslaus í heimsenda

Á vefsíðunni Green Filmmaking má finna ýmsar leiðir til að stuðla að umhverfisvænni kvikmyndagerð. Vefurinn sérhæfir sig í alls konar ábendingum og lausnum sem snúa að helstu sviðum verkferla, frá forvinnslu til listrænnar hönnunar, matar á tökustað og tæknivinnslu, svo dæmi séu nefnd.

„Eitt af því sem mér finnst vera sniðugt er að kvikmyndir og afþreyingarefni er mikill skóli. Það er mikið ábyrgðarstarf að bera eitthvað á borð fyrir fólk. Við pikkum upp alls konar hluti sem við sjáum í sjónvarpsþáttum og öðru og lærum af því. Og því oftar sem við sjáum það, því eðlilegra verður það,“ segir Telma og nefnir Free the Nipple-baráttuna sem dæmi.

„Við þurfum bara að sjá brjóst og þá hættir þetta að vera svona mikið mál. Sama held ég að eigi við um fjölnota poka, plastleysi og eldsneyti sem sparar. Ef við þræðum það meira í sögurnar sem við erum að segja og sýnum hvað þetta er eðlilegur og auðveldur hlutur í rauninni, þá vakna einhverjir kannski og sjá hvað það er lítið mál að tileinka sér það.“

Telma segist vera haldin minniháttar heimsendaþráhyggju, sem á að hluta til rætur að rekja til frétta jafnt sem loftslagsmála. „Ég er vita gagnslaus í heimsenda,“ segir hún. „Ég er leikkona, ég get ekkert gert þegar allt springur. Þannig að auðvitað vil ég gera allt sem ég get til að fyrirbyggja að allt endi í hörmungum.“

Gagnrýnin nauðsynleg

Leikkonan segir það mikilvægt að almenningur gagnrýni stjórnvöld og hið opinbera. „Auðvitað eigum við að gagnrýna opinberar stofnanir og einstaklinga ef þeir koma fram hatri og skaða fólk,“ segir hún og vísar í heimsókn Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands á dögunum, en Pence er á meðal þeirra sem vísar umhverfismálum á bug.

„Auðvitað eigum við að gagnrýna það, að það sé einhver uppbygging NATO á Keflavíkurflugvelli og hann að verða einhver vígstöð fyrir Bandaríkjaher. Auðvitað eigum við að gagnrýna það, þegar við státum okkur af því að vera herlaust land. Ef við gagnrýnum ekki svona hluti erum við búin. Fyrir nokkrum árum voru umhverfisverndarsinnar taldir vera hippar og lúðar. Síðan höfðu þeir bara rétt fyrir sér og þeir voru stöðugt að krítísera,“ segir hún.

„Ef ég lifði í fullkomnum heimi þá myndi ég vilja að allir legðu niður öll vopn og berðust gegn þessum sameiginlega sjálfskapaða fjanda. Ég ólst upp í heimi sem var ævintýri. Mér leið eins og ég gæti gert hvað sem er, ferðast og gert alls konar. En núna pæli ég stundum í því hvernig sé að vera barn í dag. Oft þegar talað er um framtíðina í dag er ekki horft lengra inn í framtíðina en til ársins 2050.“

Telma nefnir þá Gretu Thunberg frá Svíþjóð, sem vakti heimsathygli fyrir baráttu sína fyrir umhverfismálum, fimmtán ára gömul. Bandaríska tímaritið Times setti hana á lista yfir tuttugu og fimm áhrifamestu ungmenni heims undir tuttugu ára aldri.

„Eins og Greta sagði: „Til hvers að fara í skóla og læra fyrir framtíð sem ég veit ekki hvort að verði?“

Það er svo oft talað um að við séum að drepa plánetuna, en það er ekki rétt, við erum að drepa okkur sjálf. Plánetan verður hérna og hún var hérna löngu áður en við komum hingað. Hún hefur lifað af loftsteina,“ segir Telma.

„Við fundum upp á alls konar frábærum hlutum og slæmum hlutum; plasti, peningum, hverju sem er. En við fundum ekki upp á vatninu, súrefninu og jörðinni – þessu þrennu sem við þurfum á að halda til að komast lífs af. Við erum svo upptekin í okkar ímyndaða heimi, heimi peningana og veggjanna, að við gleymum því.“

Þáttinn má nálgast í heild sinni að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir