

Árekstur varð í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. Í skeyti frá lögreglu kemur fram að ökumaður sem var á ferðinni hafi komið auga á mikinn fjölda bifhjóla og fornbíla á bifreiðastæðinu við Olís við Fitjabakka. Ökumaðurinn gleymdi sér við að horfa á flotann og ók aftan á aðra bifreið. Afleiðingarnar urðu þær að flytja þurfti ökumann hennar með sjúkrabifreið undir læknishendur.
Þá var lögreglu tilkynnt um 12 ára pilt á litlu fjórhjóli í umferðinni . Lögregla hafði tal af pilti og kom þá í ljós að hann hafði stolist á hjólinu og skroppið að skólanum sínum. Honum var tjáð að svona nokkuð mætti hann alls ekki gera og sagðist hann skilja það.