Neytendasamtökin funda nú með Félagi eldri borgara, FEB, vegna íbúða FEB við Árskóga sem ekki hafa fengist afhendar til kaupenda. Þetta kemur fram á mbl.is. FEB setti kaupendum þá afarkosti að annaðhvort greiddu þeir hærra verð en gefið hafði verið upp eða ekki yrði af afhendingu. Í sumum tilvikum er viðbótarupphæðin 6-7 milljónir. Dæmi eru um kaupendur sem eru á götunni vegna þessa þar sem þeir höfðu selt íbúðir sínar í fullvissu um að þeir væru að fara að flytja inn í Árskóga.
FEB hefur sagt að hækkunin sé tilkomin vegna kostnaðarauka hjá verktakanum sem er MótX. Því hafnar verktakinn og segir kostnaðinn ávallt hafa legið fyrir en FEB hafi vanreiknað verðmætið.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir í viðtal við mbl.is:
„Áður en við tökum afstöðu viljum við fá að heyra útskýringar FEB. Ég hef aðeins verið í sambandi við þá, en við munum hitta þá á fundi í dag til að ræða þetta.
En það er skringilegt að fólki skuli vera gert að greiða hærra en umsamið verð og fær ekki afhenta lyklana sína nema það skrifi undir einhverja skilmála. Það þykir okkur í það minnsta mjög skringilegt, en við bíðum þess að fá skýringar frá þeim.“