Meðal þess helsta er að maður, vopnaður hníf, reyndi að brjótast inn í hús í miðborginni á fyrsta tímanum í nótt. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Maður datt á skemmtistað í miðborginni á fyrsta tímanum í nótt og skarst á höfði. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.
Á fimmta tímanum í nótt var maður handtekinn í Kópavogi grunaður um tilraun til innbrots. Hnuplarar voru staðnir að verki í verslunum í Garðabæ og Breiðholti síðdegis í gær.
Tilkynnt var um líkamsárás í Hlíðahverfi síðdegis í gær. Tveir ökumenn voru handteknir í nótt, annar er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis en hinn undir áhrifum fíkniefna.
Eignaspjöll á bifreið, innbrot í bifreið, ofurölvi fólk og hávaði frá heimahúsum voru einnig mál sem rötuðu inn á borð lögreglunnar.