Heilbrigðisráðherra tilkynnti í febrúar að 630 milljónum skyldi varið í geðheilbrigðismál á Íslandi. Heilsugæslan ætti að sinna andlegum veikindum jafnt sem þeim líkamlegu og Landspítalinn að sinna börnum og ungmennum í fíknivanda. Greindi hún svo frá að undirbúningur væri þegar hafinn. Það eru frábærar fréttir, en verða nokkuð marklausar nú nokkrum mánuðum síðar. Landspítalinn þurfti að loka 15 plássum á bráðageðdeild. Þeir sem eru í vanda og hafa hug á að sækja meðferð við áfengis- og/eða vímuvanda þurfa að taka sér stöðu aftast á löngum biðlista. Albert Ísleifsson lét lífið þann 9. júlí. Hann vildi sækja sér hjálp, en fann enga. Á meðan heldur kerfið áfram að grotna niður, skreppa saman vegna hagræðingar og manneklu. Á meðan heldur unga fólkið okkar áfram að deyja.