„Ég átti afar lítinn hlut í Bláa Lóninu við stofnun. Ég hef að langmestu leyti keypt hlutina af fjárfestum sem studdu við bakið á fyrirtækinu þegar það tók sín fyrstu skref en vildu svo losa sinn hlut,“ segir Grímur Sæmundsen, stofnandi og forstjóri Bláa lónsins, í viðtali við Markaðinn í dag.
Grímur hefur verið einn tekjuhæsti Íslendingurinn undanfarin ár enda uppgangurinn í íslenskri ferðaþjónustu verið lyginni líkastur. Grímur hafði forystu um stofnun Bláa lónsins hf. árið 1992 og hefur hann verið framkvæmdastjóri og síðar forstjóri félagsins frá upphafi.
Í viðtalinu við Markaðinn fer Grímur um víðan völl og rifjar meðal annars upp hvernig hann eignaðist jafn stóran hlut í Bláa lóninu og raun ber vitni.
Eins og Grímur bendir á í byrjun þá átti hann lítinn hlut við stofnun Bláa lónsins. Frumkvöðlar eignist oft myndarlegan hlut í þeim fyrirtækjum sem þeir stofna og svo minnkar hluturinn eftir því sem meira hlutafé er sótt til fjárvesta. „Þessu var öfugt farið í mínu tilviki. Ég byrjaði með lítinn hlut og fjárfesti af eigin rammleik,“ segir hann.
Hann segir að á árunum 2003 til 2005 hafi Kólfur, félag í eigu hans og Edvards Júlíussonar, keypt eignarhluti fyrirtækja eins og Olís, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Íslenskra aðalverktaka, í fyrirtækinu. Kólfur á nú um fjórðung hlutafjár í Bláa lóninu og á Grímur 75 prósenta hlut í Kólfi á móti Edvard.
Þó Grímur sé orðinn 64 ára virðist hann hvergi nærri hættur og til marks um það bætti Kólfur við hlut sinn í Bláa lóninu undir lok síðasta árs – þá var Bláa lónið metið á 50 milljarða króna. Eins og að framan greinir hefur uppgangur Bláa lónsins verið mikill en til samanburðar var markaðsvirðið um fjórir milljarðar árið 2007.
Í tekjublaði DV árið 2018 kom fram að Grímur væri með tæpar ellefu milljónir króna á mánuði. Það gerir Grím að einum allra launahæsta forstjóra landsins.
Í viðtalinu er Grímur svo spurður hvort hann hafi þurft að veðsetja heimili sitt til að halda fyrirtækinu í hruninu. „Já, það var allt undir og þetta var mjög erfiður tími. Þetta er leið sem ég myndi ekki ráðleggja neinum frumkvöðli að fara en sem betur fer hefur fjárfestingaumhverfi frumkvöðla batnað mikið á undanförnum árum.“
Grímur er einnig spurður út í horfurnar í ferðaþjónustunni nú þegar blikur eru á lofti eftir gjaldþrot WOW air. Grímur segist vera bjartsýnn á framtíðina en hann segist engu að síður hafa áhyggjur af framboði á flugsætum til Íslands. Fall WOW air hafi sín áhrif en við það bætist að á sama tíma getur Icelandair ekki vaxið eins og til stóð vegna kyrrsetningar Boeing-þotnanna.
„Að þessu sögðu er ferðaþjónusta komin til að vera sem burðaratvinnugrein í íslensku efnahagslífi. Framtíðin er björt. Ef spár ganga eftir mun í ár svipaður fjöldi ferðamanna sækja landið heim og árið 2016. Það gerir um 1,8 milljónir ferðamanna. Þetta er mikill fjöldi á alla mælikvarða sem ferðaþjónustan þarf áfram að sinna.“