Jóhann Berg Guðmundsson reyndist hetja íslenska landsliðsins í dag er liðið spilaði gegn Albaníu.
Jói Berg gerði eina mark leiksins á 22. mínútu en hann skoraði eftir frábært einstaklingsframtak.
Jói var þó ekki alveg nógu sáttur í leikslok og þá sérstaklega með það að Laugardalsvöllur hafi ekki verið fullur. Einnig fór okkar maður meiddur af velli í seinni hálfleik.
,,Þetta var var glæsilegt mark og bara gríðarlega mikilvægt. Við vissum að Albanir væru gott lið og það má ekki gleyma því,“ sagði Jói við Rúv.
,,Það var gott að fá þetta mark snemma. Þetta var ekki fallegur leikur og við vitum að við getum spilað betur en eina sem skiptir máli er að ná í þessa þrjá punkta.“
,,Ég veit ekki hver staðan á mér er. Hún er auðvitað ekki eins og hún á að vera, ég er í smá basli og það er eins og það er. Nú koma nokkrir dagar til að koma mér í stand fyrir þriðjudaginn.“
,,Mér fannst við ekki halda boltanum nógu vel seinni part seinni hálfleiks, þá vorum við að missa hann of auðveldlega og við þurfum að bæta það. Þeir sköpuðu sér samt engin alvöru færi, það voru nokkrar fyrirgjafir en ekki meira en það.“
,,Við vissum að ef við myndum spila okkar leik þá myndum við vinna. Það eru nokkrir sem hafa ekki eins mikla trú á þessu verkefni og við. Það var ekki uppselt í dag sem er skrítið fyrir okkur því undanfarin ár hefur alltaf verið slegist um miða en ekki í dag. Það finnst mér mjög skrítið.“