Ömurlegt atvik átti sér stað á Englandi í dag er lið Crystal Palace og Bournemouth áttust við.
Um var að ræða leik í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar og hafði Palace betur 5-3 á heimavelli.
Zafar Iqbal er hluti af læknateymi Palace en hann gerði sér leið á völlinn í dag ásamt börnum sínum.
Þar varð Iqbal fyrir kynþáttaníði en hann greinir sjálfur frá þessu á Twitter-síðu sinni.
Iqbal var kallaður ‘paki’ af þriggja ára barni sem benti á hann og reyndi að ná athygli pabba síns. ‘Paki’ er niðrandi orð sem er oft notað um fólk frá Suður-Asíu í Bretlandi.
,,Ég er miður mín og orðlaus. Ég fór með tveimur yngstu börnum mínum á þeirra fyrsta leik á Selhurst park,“ sagði Iqbal.
,,Þriggja ára barn öskraði á pabba sinn og sagði: ‘Sjáðu pabbi, þarna er einhver paki.’ Pabbi hans reyndi að tala hann til. Rasismi er ekki bara vandamál í fótbolta.“
,,Ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við. Ég gat ekki öskrað á þriggja ára krakka. Átti ég að segja eitthvað við pabbann þegar ég var með tveimur af mínum börnum?“
,,Það sem særir mig mest er að 12 ára dóttir mín kom að mér og spurði mig hvort ég hefði heyrt þetta, ég vissi ekki hvað ég átti að segja. Ég var orðlaus.“