Það er einn leikur í Pepsi Max-deild karla í kvöld þegar FH heimsækir Víking en leikið er á gervigrasinu í Laugardal. Víkingar bíða eftir því að gervigrasið í Víkinni verði klárt.
Logi Tómasson, leikmaður Víkings vakti athygli í fyrstu umferð deildarinnar þegar hann skoraði, geggjað mark gegn Val. Hann klobbaði tvo og nelgdi boltanum í samskeytin.
Logi er rappari og er þekktur sem Luigi, Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH hefur verið að hlusta á Luigi fyrir leikinn.
,,Það er alltaf sekt ef menn fá á sig klobba í reit, við erum með Davíð Viðarsson sem er sonur klobba legendarinnar, Viðars Halldórssonar. Hann var þekktur fyrir að reyna þetta,“ sagði Ólafur Kristjánsson í viðtali við Friðrik Dór á heimasvæði FH á Facebook.
Ólafur leggur ekki neina áherslu á það að stoppa klobbana hans Loga en hrósar tónlist hans.
,,Það er ekki nein áhersla á að stoppa þetta bragð Loga, það er búið að vera gaman að fylgjast með honum í vikunni. Yngri mennirnir í þjálfarateyminu, hafa leyft mér að heyra lögin hans. Hann er lagviss, maður hefur séð það að textarnir þurfa ekki alltaf að vera djúpir. Það er að halda lagi og takti.“