fbpx
Laugardagur 03.maí 2025
Eyjan

Erla Bolladóttir ósátt og sár út í Katrínu: „Verið að hrúga salti í öll sár“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 3. maí 2019 10:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erla Bolladóttir, sem dæmd var fyrir meinsæri á sínum tíma í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, segir í viðtali við Mannlíf að hún sé ósátt við að sök sín sé látin standa þrátt fyrir sýknudóm Hæstaréttar í fyrra. Hún segir það þungbært að lifa með dómnum allan þennan tíma og að sök hennar standi ennþá sé áfall út af fyrir sig, þar sem hún hafi verið útskúfuð og hötuð í áratugi. Mál Erlu var ekki endurupptekið þar sem hún var ekki dæmd fyrir morð á Guðmundi Einarssyni og Geirfinni Einarssyni, aðeins meinsæri.

Erla, sem er afar ósátt við framkomu Kristúnar Heimisdóttur, sem fór fyrir sáttanefnd í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra,  segir að hún hafi ekki verið virt viðlits:

 „Það sem mér finnst erfitt núna er að það er verið að hrúga salti í öll sár, dag eftir dag, á meðan enginn lætur í sér heyra. Að auki liggur þarna inni krafa frá mér um skaðabætur vegna einangrunar minnar 1976 því hún var klárlega ólögleg, hvað sem öllu öðru líður. En það hefur enginn talað við mig. Það er bara eins og ég sé ekki til en það erindi fór samt formlega í janúar frá lögmanni mínum til „sáttanefndar“. Ég hef ekki verið virt viðlits.“

Lítilsvirðandi framkoma

Erla bað um viðtal við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra eftir sýknudóminn á síðasta ári, þar sem hún vildi reifa þann möguleika á að kæra niðurstöðu endurupptökunefndarinnar og Katrín myndi þá samþykkja að ríkislögmaður semdi við Erlu utan dóms, með því að samþykkja ógildinguna.

„Einhverjum tíu dögum síðar fékk ég þau skilaboð að Katrín vildi að ég hitti fyrst Kristrúnu Heimisdóttur. Ég hafði ekkert við hana að tala, ekki komin með skaðabótakröfuna þá og sá enga ástæðu til þess að hitta hana. En Katrín var sögð leggja áherslu á þetta og að hún ætlaði síðan að hitta mig í framhaldinu svo ég fór til fundar við Kristrúnu ásamt fylgdarmanni, af fenginni reynslu. Ég gat ekki borið upp erindi mitt við Kristrúnu og allra síst eftir að ég var búin að setjast niður með henni. Ég á erfitt með opinbert starfsfólk sem heldur fundi og tikkar í öll box en svo gerist ekkert,“

segir Erla við Mannlíf, sem segir hana fullsadda af  innantómu „orðagjálfri“ kerfisins, sem hafi farið langt með að eyðileggja fyrir henni lífið. Kristrún, sem er fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar, leiddi sáttanefnd vegna eftirmála í Guðmundar- og Geirfinnsmálsins og var skipuð af forsætisráðherra daginn eftir sýknudóminn, í lok september 2018.

Fékk Erla þau svör að fundurinn við Kristrúnu væri til þess að Katrín fengi betri innsýn inn í málið. Kristrún spurði Erlu meðal annars hvernig henni hefði liðið yfir málinu:

„Mér var illa misboðið, leið eins og leiða ætti mig út í kviksyndi. Hún fann það auk þess hjá sér að segja að ef mér liði einhvern tíma illa yfir þessu máli eða væri kvíðin þá væri mér velkomið að hringja í hana hvenær sem væri. Ekki veit ég í hvaða vídd svona fólk hrærist. Að tala við mig eins og ég hefði verið alein skríðandi um í myrkrinu í meira en fjörutíu ár þangað til hún birtist til þess að vera vinkona mín. Þetta fannst mér lítilsvirðandi framkoma við mína persónu og allt sem á undan var gengið.“

Ekkert svar

Erla segir þó að þögn forsætisráðherra hafi meitt meira en viðbrögð Kristrúnar, en hún fékk fund með Katrínu þann 27. desember:

 „Ég hitti Katrínu og reifaði þau mál sem þurfti og það var fínt að tala við hana. Hún sagði reyndar í upphafi fundar að hún vildi að við hittumst aftur í lok janúar því þá ætlaði hún að geta útskýrt fyrir mér stöðuna. Seinna á þessum fundi ítrekaði hún að við hittumst aftur í lok janúar. Þann sjöunda febrúar sendi ég henni tölvupóst og sagðist vera orðin langeyg eftir fundinum til þess að geta ákveðið næstu skref. Ekkert svar. Í fyrrihluta mars sendi ég aftur póst og sagði að enn hefði ég ekkert heyrt. Var vissulega orðin sár og að reyna að skilja hverju sætti að mér væri ekki svarað. Enn hef ég ekkert heyrt,“

segir Erla og bætir við:

„Ef þú biður einhvern fyrirgefningar en heldur svo áfram að sparka í viðkomandi, er það þá marktæk fyrirgefningarbeiðni? Þetta tvöfalda siðferði að biðjast fyrirgefningar en halda svo öllum á stað sem heldur áfram að meiða og særa viðkomandi. Að halda þessu svona vofandi yfir þeim sem hafa mátt þola allt sem á undan er gengið er framkoma sama eðlis og við höfum alla tíð mátt þola af hálfu þessa kerfis.“

Hugur fylgi ekki máli

Erla segir málinu ekki lokið og telur að ríkisstjórnin hefði betur sleppt því að biðja afsökunar þar sem hugur hefði ekki fylgt máli:

„Ég er sár út í Katrínu. Ég fylltist von um að nú kæmi einhver niðurstaða sem mundi feykja skýjunum frá sólinni. Ég hafði á tilfinningunni að þessi kona sem ég hafði haft mætur á væri einmitt manneskjan sem myndi ljúka langri og myrkri göngu okkar allra. Veruleikinn er hins vegar sá að þögn hennar meiðir mig meira en margt annað hefur gert. Það væri betra ef ríkisstjórnin hefði sleppt því að biðjast fyrirgefningar því hugur virðist ekki hafa fylgt þar máli. Þessu máli er ekki lokið fyrr en ég, Sævar og Kristján höfum verið sýknuð af röngum sakargiftum. Enginn vilji virðist hins vegar hafa verið í réttarkerfinu á neinu stigi málsins til að takast á við þá ábyrgð sem á því hvílir í þessu hörmulega máli.“

Sjá einnig: Erla Bolladóttir:„Traust mitt á kerfinu er orðið æði þunnt“

Sjá einnig: Erla ætlar að halda málinu áfram:„Ég treysti engu fyrr en það var komið“

Sjá einnig: „Viðbjóðslegt að horfa upp á yfirvöldin okkar henda Erlu Bolladóttur í ruslið“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón Skrifar: Um gagnsemi prófa

Björn Jón Skrifar: Um gagnsemi prófa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Þriggja vasaklúta grátskýrsla Síldarvinnslunnar – Bubbi sendir tóninn – 28 byggðir hafa tapað lífsbjörginni

Orðið á götunni: Þriggja vasaklúta grátskýrsla Síldarvinnslunnar – Bubbi sendir tóninn – 28 byggðir hafa tapað lífsbjörginni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Í skálkaskjóli skrollsins

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Í skálkaskjóli skrollsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hanna Katrín Friðriksson: Leiðrétting veiðigjalda festir í sessi fyrirsjáanleika í sjávarútvegi

Hanna Katrín Friðriksson: Leiðrétting veiðigjalda festir í sessi fyrirsjáanleika í sjávarútvegi