Ansi skondið atvik átti sér stað um helgina er utandeindarliðin Kidlington og Cheltenham Saracans áttust við.
Liðin áttust við í deildarkeppni en á 73. mínútu leiksins fékk markvörður Kidlington, Julius Muraga rauða spjaldið.
Stuttu eftir að Muraga hafði labbað inn í klefa þá var slökkt á flóðljósum vallarins og þurfti að stöðva leik.
Það var Muraga sem slökkti ljósin á vellinum og var hann um leið ásakaður um að hafa gert það viljandi í reiðiskasti.
Það reyndist hins vegar ekki rétt en markmaðurinn hélt að hann hefði verið að kveikja á sturtunum í búningsklefanum.
Hann ýtti hins vegar á vitlausan takka og slökkti öll ljós óvart. Leikurinn tafðist í um tíu mínútur en Cheltenham vann að lokum 3-1 sigur.