Einar Bárðarson var ánægður með áhugaverðan fund sem hann fór á í hádeginu en fundurinn bar yfirskriftina „Þegar konur segja frá – metoo og kraftur samstöðunnar”. Fundurinn var haldinn í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna sem er á morgun.
Ein staðreynd varðandi fundinn gerði Einar dapran: Í fullum sal voru aðeins níu karlar á fundinum. Hann skrifar um þetta á Facebook-síðu sína:
„Í tilefni af Alþjóðlegum bráttudegi kvenna fór ég á fund í hádeginu á Grand Hótel sem bar yfirskriftina „Þegar konur segja frá – metoo og kraftur samstöðunnar“. Það kom margt mjög áhugavert fram þar.
Það var fullur salur en ég var einn af níu karlmönnum þarna sem mér þótti áhugavert og dapurlegt í senn.
ASÍ, BHM, BSRB, Kvenréttindafélag Íslands, Jafnréttisstofa, Kennarasamband Íslands og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja eiga þakkir skilið fyrir þennan viðburð.”
Vera kann að málefni metoo-hreyfingarinnar höfði sérstaklega til Einars eftir atburði síðasta árs. Þá kvartaði eiginkona hans, Áslaug Thelma Einarsdóttir, undan kynferðislegri áreitni forstjóra Orku náttúrunnar, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, en Áslaug gegndi þar starfi markaðsstjóra. Kvartanirnar urðu til þess að forstjórinn var leystur frá störfum.