Margrét Friðriksdóttir, stjórnandi Stjórnmálaspjallsins á Facebook, segir það misskilning að hún hafi hótað því að flytja frá Íslandi ef Hatari myndi sigra Söngvakeppnina. Ívar Halldórsson, útvarpsmaður á Bylgjunni og verslunarstjóri í Rúmfatalagernum, fordæmdi Hatara í aðdraganda keppninnar en deilir nú samsæriskenningu um að fréttastofa RÚV standi að baki Hatara.
Hatari sigraði Söngvakeppnina á laugardaginn með yfirburðum og verður því framlag Íslands í Eurovison. Sú staðreyndi virðist fara illa í stuðningsmenn Ísraels á Íslandi. Innan Stjórnmálaspjallsins segist Margrét hafa áhuga á að fara með Hatara til Ísrael og skíra þá í ánni Jórdan. Þar deilir hún frétt Times of Israel sem er gagnrýnin á Hatara.
Sjá einnig: Margrét hótar að flytja frá Íslandi ef Hatari sigrar: „Best að leyfa Íslandi að sökkva“
„Jæja þá hefur hljómsveitinni Hatarar strax tekist að vekja neikvæða athygli á landi og þjóð og eru sakaðir um gyðingahatur eins og ég óttaðist, það er voða erfitt að vera vitur eftir á en líkur eru á að atriðið verði bannað úr keppninni í ár þar sem pólistískur áróður eða ádeilur er bannaður í keppninni og hefur það verið þannig frá upphafi og strangt tekið á slíku. Eurovision var einmitt stofnuð með það hugarfar að ýta öllum pólitískum deilum til hliðar og leyfa listamönnum að sameinast án pólitískra afskipta,“ segir Margrét.
Hún er í athugasemdum hvött til þess að fara með hljómsveitinni til Ísrael og því svarar Margrét: „Já það er alveg til í því ég er að hugsa um að rukka þá um farmiðann og kannski ég geti komið fyrir vitinu hjá strákunum, t.d fara með þá á ánna Jordan þar sem þeir geta tekið skírn og frelsast á sama stað og Jesú.“
Margrét er svo spurð hvort hún ætli ekki að standa við stóru orðin og flytja frá Íslandi. Nú segir hún það grín. „Aulabrandari ég sagðist reyndar aldrei ætla að flytja út, þetta voru bara hugleiðingar mínar í einkasamtali við einn mann og DV bjó til æsifrétt úr hálfgerðu gríni og kjánar eins og þú keyptu auðvitað bullið frá sorpmiðlinum,“ segir Margrét.
Sjá einnig: Hatari vann. Flytur Margrét af landi brott? Sjáðu hverju hún svarar
Rétt er að taka fram að DV hefur ekki aðgang að einkasamtölum hennar, hún lét orðin falla innan nærri níu þúsund manna hóps á Facebook. Orðrétt sagði Margrét í athugasemd við færslu innan Stjórnmálaspjallsins: „Jú það er hægt að flýja myrkrið og það mun ég gera ef þetta lag fer áfram, og mun sennilega aldrei viðurkenna að ég sé frá Íslandi.“
Margrét deilir svo þeirri kenningu þar sem ýjað er að því að sigur Hatara sé skipulagður áróður sem fréttastofa RÚV standi að baki. „Er sigur „Hatari“ tilviljun eða skipulagður áróður? 1. RÚV hefur ekki beint falið andúð sína á Ísrael í ófaglegum og óhlutlausum fréttafluningi sínum af baráttunni fyrir botni Miðjarðarhafs.. 2. Söngvari „Hatari“ Matthías Tryggvi, vinnur sem fréttamaður hjá RÚV. 3. Atriði þeirra var síðast í röðinni í úrslitunum sem þykir alltaf besta slott í söngvakeppnum. 4. Bogi Ágústsson fréttamaður hjá RÚV hefur verið mjög virkur í félaginu „Ísland-Palestína“ og hefur ekki leynt andúð sinni á Ísrael.“
Ívar Halldórsson, útvarpsmaður á Bylgjunni, skrifaði nokkuð harðorða grein um Hatara á dögunum. Opið bréf hans til útvarpsstjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, þar sem hann hvatti til að hljómsveitin yrði bönnuð vakti mikla athygli. Hann virðist nú deila þeirri skoðun að Hatari sé strengjabrúða RÚV. Hann deilir nafnlausum pistli á síðu sem nefnist Skoðanafrelsi – JÁ TAKK þar sem þær hugmyndir eru viðraðar. „Var að vona að hefði rangt fyrir mér, en þetta birtist fyrir stuttu,“ skrifar Ívar og deilir færslunni.
Þar segir að RÚV hafi verið varað við þessu og er þar vísað í pistil Ívars. „Þá byrjar ljóta ballið. Útvarpsstjóri RÚV var varaður við fyrir stuttu með opnu bréfi í fjölmiðlum um að þetta myndi gerast ef hljómsveitin Hatari fengi að taka þátt í Eurovision. Hann ákvað hins vegar að gera ekki neitt. Söngvari sveitarinnar er fréttamaður hjá RÚV og er ekki hægt annað en að velta fyrir sér hvort RÚV sé vísvitandi að draga þjóðina inn í pólitíska deilu með þessum hætti,“ segir í færslunni.
Því næst er sagt að skattgreiðendur hafi ekki verið spurðir: „RÚV hefur með hlutlægri fréttamennsku sinni ekki leynt pólitískri afstöðu sinni til átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs og virðist nú hafa tekið sér það bessaleyfi að gerast málpípa þjóðarinnar með þessu umdeilda framlagi til keppninnar – og sendir fyrir hönd okkar allra fulltrúa sem hvetja til sniðgöngu á Ísrael. Við skattgreiðendur erum ekki spurðir, heldur er atkvæðið 900-9905 látið gilda sem kosning um pólitíska afstöðu Íslands til ísraelskra stjórnmála. Við erum strax búin að verða okkur til skammar sem þjóð vegna þessa og enn margar vikur í keppnina sjálfa. Takk RÚV fyrir að nota skattpeningana okkar til að sverta okkar mannorð, hneyksla fólk um allan heim og gera okkur að fíflum.“