Dregið hefur úr frosti sunnanlands eftir mikla kuldatíð undanfarið en enn er mikið frost fyrir norðan. Á þriðjudag verður mesta kuldakastið liðið hjá og í bili verður hlýrra í veðri á öllu landinu. Þó verður ekki mikill hiti en hann mun sveiflast frá þriggja gráðu frosti upp í þriggja stiga hita. Pistill veðurfræðings á Veðurstofu Íslands um veðurútlitið næstu daga er svohljóðandi:
Talsvert hefur dregið úr frostinu syðst á landinu og eru litlar líkur á að við munum sjá svipaðar tölur þar aftur í bili. Hins vegar sleppir kuldaboli ekki takinu fyrir norðan alveg strax og ef eitthvað hefur hann hert tökin þar.
Á þriðjudaginn verður mesta kuldakastið liðið hjá og við taka mildari tímar, allavega í bili. Samt mun hitinn vera lengst af plús/mínus 3 gráður hjá flestum, þótt vissulega mælist bæði hærri og lægri hita á milli enda sjást oft staðbundin áhrif eins og nýleg stöð í Víðidal í Reykjavík ber með sér. Þar myndast oft svokallaður kuldapollur þar sem kalt loft sígur niður í lægðir en enginn vindur er til að blanda það við mildara loft og með snjó á jörðu verður köld útgeislun snævar enn til að auka áhrifin. Þannig aðstæður hafa myndast nokkuð víða a landinu að undanförnu en nú sem sagt sér fyrir endann á mesta kuldakaflanum.