Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákært tvo Íslendinga, karl og konu sem bæði eru búsett í Svíþjóð, fyrir ólögmæta meðferð á fundnu fé. Ákæran var birt í Lögbirtingarblaðinu í gær og eru Íslendingarnir kvaddir til að koma fyrir dóm, hlýða á ákæru, halda uppi vörnum og sæta dómi.
Þannig er mál með vexti að í ágúst 2014 millifærði starfsmaður Landsbankans fyrir mistök 303 þúsund krónur af VISA-korti konunnar inn á reikning mannsins, að beiðni konunnar. VISA-kort konunnar var án innistæðu og samkvæmt ákæru hefur peningurinn ekki verið greiddur til baka.
Brot af þessu tagi varðar við 246. grein almennra hegningarlaga. „Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Í málinu krefst Landsbankinn bóta að fjárhæð kr. 303.821, auk vaxta,“ segir í ákærunni í Lögbirtingarblaðinu.