Hjátrú og trú tengist mikið inn í íþróttir og í Bandaríkjunum eru mörg dæmi þess að íþróttafólk telji að trú sín á guð hjálpi mikið til. Sú hefð er ekki eins rík á okkar ástkæra Íslandi en nokkrir íþróttamenn trúa þó á guð en kannski ekki á hjálp hans í keppni. Hjátrú er einnig stór hluti af íþróttum og margir sem nýta sér það og telja það hjálpa sér í leik og starfi. DV fékk nokkra af okkur fremstu íþróttamönnum til að svara spurningum um hjátrú og trú.
##Arnar Pétursson – Íslandsmeistari í hlaupum##Ertu hjátrúarfullur?Nei, ég hef enga hjátrú. Var um tímabil alltaf í sömu sokkunum þegar ég var yngri en svo urðu þeir ónýtir og það kom ekkert í staðinn.##Ertu trúaður og ef svo er hjálpar trúin þér í íþróttum?Ég er alls ekki trúaður og væri mjög mikið til í að Ísland yrði fyrsta almennilega trúlausa land í heiminum. Að sama skapi væri ég virkilega til í að vera trúaður því ég held maður geti sótt ótrúlegan innri styrk með því að trúa á eitthvað stærra en maður sjálfur, því miður er bara ekkert sem hefur látið mig halda að Guð sé til.
##Andri Rúnar Bjarnason – Landsliðsmaður í knattspyrnu##Ertu hjátrúarfullur?Ég hef enga hjátrú eða neitt þess konar.##Ertu trúaður og ef svo er hjálpar trúin þér í íþróttum?Ég trúi ekki á guð. Ég gerði það þegar ég var yngri en eftir því sem vísindin urðu öflugri og við fengum fleiri svör því minni varð trú mín.
##Valdís Þóra Jónsdóttir – Atvinnukylfingur##Ertu hjátrúarfull?Ég hef ekki beint hjátrú þannig séð en er með rútínu sem er alltaf sú sama áður en ég fer út á völl.##Ertu trúuð og ef svo er hjálpar trúin þér í íþróttum?Ég trúi ekki beint á guð en ég trúi á að það sé eitthvað annað sem tekur á móti manni þegar maður deyr.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
##Júlían J. K. Jóhannsson – Kraftlyftingamaður##Ertu hjátrúarfullur?Ég ekki með neina sérstaka hjátrú fyrir mót hjá mér en auðvitað ýmsar reglur sem ég set mér og sá reglurammi þrengist þegar nær dregur móti. En ég hef reynt að þjálfa mig í því að æfa og keppa við fjölbreyttar aðstæður svo ég sé undir sem flest búinn. Til að bæta aðeins við þá hefur það gerst tvisvar að ég hef borðað hangikjöt með uppstúf o.s.frv. kvöldið fyrir mót og á þeim mótum hefur mér gengið mjög vel en það hefur ekki orðið að neinni hjátrú hjá mér enn.##Ertu trúaður og ef svo er hjálpar trúin þér í íþróttum?Ég get nú ekki sagt að ég sé trúaður en ég hef séð marga trúaða keppa í minni íþrótt og stundum er engu líkara en það hjálpi þeim. Kannski að það sé málið.
##Glódís Perla Viggósdóttir – Landsliðskona í knattspyrnu##Ertu hjátrúarfull?Ég er ekki með neina hjátrú fyrir æfingar né leiki. Var hins vegar þegar ég var yngri með hjátrú um að ég þyrfti að fara í hægri skóinn á undan vinstri og eitthvað svona týpískt fyrir leiki. ##Ertu trúuð og ef svo er hjálpar trúin þér í íþróttum?Ég veit í raun ekki alveg hverju ég trúi og er því ekki viss um hvort ég trúi á guð eða ekki. Ég trúi að það sé eitthvað æðra okkur en trúi ekki endilega að það hafi einhvern mátt eða áhrif á okkar veruleika heldur sé frekar einhvers konar ró sem við getum leitað til og sé eins konar ljós í myrkri.
##Kristófer Acox – Landsliðsmaður í körfubolta##Ertu hjátrúarfullur?Ég held ég geti sagt að ég sé með tvær. Ég sit alltaf á sama stað á vídeófundum daginn fyrir leik og æfi einnig alltaf í vissu skópari daginn fyrir leik. ##Ertu trúaður og ef svo er hjálpar trúin þér í íþróttum?Ég myndi ekki segja að ég trúi á guð, en trúi á að mínir nánustu sem hafa fallið frá vaki yfir mér og ég „bið„ eða tala t.a.m. alltaf við hana ömmu mína sálugu rétt fyrir leik. Er bara ekki alinn upp við mikla trú og held að það sé meginástæða þess að ég er ekki trúaður.
##Hjörvar Steinn Grétarsson – Stórmeistari í skák##Ertu hjátrúarfullur?Ég er almennt ekki hjátrúarfullur en ég viðurkenni að það eru nokkrir hlutir sem ég geri almennt þegar ég tefli á mótum. Ég borða yfirleitt sama matinn fyrir mót og til þess að skrifa skákirnar (það er eitt af því sem skákmenn þurfa alltaf að gera í lengri skákum) nota ég yfirleitt sama pennann. Frá því að ég byrjaði að tefla hef ég ætíð teflt skólaus en það er byggt á hugmyndum um þægindi fremur en einhvers konar hjátrú. Ég myndi segja að eina hjátrú mín væri tengd pennanotkun. Ef ég þarf virkilega að komast í tæri við minn innri keppnismann þá hlusta ég á rapp fyrir skákina. Helst „old school“ Tupac.##Ertu trúaður og ef svo er hjálpar trúin þér í íþróttum?Ég trúi á Guð. Móðir mín fór reglulega með bænir með mér á kvöldin þegar ég var yngri. Ég myndi seint teljast strangtrúaður en grundvöllur trúar minnar er sú afstaða að það sé eitthvað æðra en maðurinn. Allir afreksmenn hafa gengið í gegnum erfiðleika og ég myndi segja að trúin hjálpi manni að komast í gegnum þá þótt ég telji að almennt sé góður stuðningur fjölskyldu og vina langtum mikilvægari.