fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Líkið brennt og askan send heim til móðurinnar í pósti

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 12. október 2018 20:45

Rætt um Undir Halastjörnu í Bíóhorninu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bíóhornið er nýr þáttur sem hefur göngu sína í dag í DV sjónvarpi. Eins og nafnið gefur til kynna er þátturinn helgaður kvikmyndum en í fyrsta þætti er fjallað um íslensku myndina Undir halastjörnu sem frumsýnd er í dag.

Við fengum til okkar tvo aðalleikara myndarinnar, þá Tómas Lemarquis og hinn eistneska Pääru Oja sem og leikstjórann og handritshöfundinn Ara Alexander Ergis Magnússon. Ari hefur gert heimildarmyndir í tuttugu ár og var ekki á leiðinni að gera leikna mynd í fullri lengd en svo kom líkfundarmálið svokallaða upp árið 2004, en myndin er byggð á því sérstaka sakamáli. Landsmenn fengu fregnir, einn veðrasaman dag í febrúar, að lík hefði fundist í sjónum við Neskaupsstað og vakti framvinda málsins athygli Ara.

„Það sem var svolítið merkilegt var að það saknaði enginn neins. Það vantaði engan fjölskyldumeðlim á Neskaupsstað, Djúpavogi eða neins staðar á Austfjörðum, eða hvað þá annars staðar á Íslandi,“ segir Ari í samtali við Bíóhornið, en viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Veruleikinn verður að sannleika

„Síðan kemur þessi saga í ljós sem er lyginni líkust. Þá fékk ég áhuga á að skoða þetta,“ segir Ari. Stuttu eftir að málið kom upp var Ari mættur í sjónvarpsþáttinn Ísland í dag með framleiðandanum Sigurjón Sighvatssyni, en þeir höfðu nýlokið við að gera heimildarmynd um íslenska tónlist, Gargandi snilld. Næsti gestur á eftir þeim í myndaverinu var annar líkfundamannanna svokölluðu.

„Þá vissi enginn neitt. Hann neitaði öllu staðfastlega og mjög sannfærandi í því. Þá fór ég að hugsa að ég hef áhuga á lyginni og hvernig þú tekur þig til og þú heldur þessu fram og þú býrð til þinn veruleika og veruleikinn verður að sannleika. Þetta fann mér áhugavert þannig að ég fór að skoða þetta,“ segir Ari.

Hitti fullt af fíklum og dópsölum

Hann tók strax ákvörðun um að vinna myndina ekki í samstarfi við þá sem komu að líkfundamálinu í raun og veru og lagði mikið upp úr því að persónurnar í myndinni yrðu mjög ólíkar raunverulegu leikendum í einu athyglisverðasta sakamáli Íslandssögunnar. Þó myndin sé vissulega spennumynd og afar dramatísk þá segir Ari að hann reyni að sýna mannlegar hliðar þessa máls og hvernig lygavefur getur valdið því að þú komist í óyfirstíganlegt klandur. Kannar hann til dæmis þá hlið málsins að annar líkfundamannanna hafi flúið í raun og veru til móður sinnar á Neskaupsstað.

„Þú lendir í verulegum vandræðum, það er dolítið eins og með sjálfan mig. Ég er mömmustrákur sjálfur og mér fannst þetta frekar eðlileg viðbrögð,“ segir Ari, en Tómas Lemarquis leikur manninn sem leitaði skjóls hjá mömmu.

„Ég er sá sem fer til mömmu. Ég man eftir þessu máli. Náttúrulega fylgjum við sögunni ansi vel eftir en það var mjög mikilvægt fyrir okkur að taka smá fjarlægð frá alvöru karakterunum. Ég er ekki að reyna að vera eins og hann. Við notuðum söguna og bjuggum til okkar útgáfu af þessu,“ segir Tómas. Hann segir þetta hafa verið krefjandi verkefni – að komast inn í hugarheim þessara manna.

„Það áhugaverða við að vera leikari er að setja sig í alls konar aðstæður sem maður myndi ekki lenda í. Ég fór og hitti fullt af fíklum og dópsölum og fólki sem lifir og hrærist í þessum heimi. Ég drakk í mig þessa orku og stemningu. Þetta er aldrei auðvelt. Þetta eru aðstæður sem eru ekki þægilegar,“ bætir hann við.

Vitlaust fólk handtekið

Fíkniefnaheimurinn spilar einmitt stórt hlutverk í myndinni, en þeir sem muna eftir líkfundamálinu vita að sá sem lést, hinn litháíski Vaidas Jucevisius, var með amfetamín í iðrum sínum – svokallað burðardýr. Í kjölfar komunnar til Íslands varð hann veikur og líkfundamennirnir tveir komu honum ekki til hjálpar með þeim afleiðingum að hann lést.

Sjá einnig: Ari Alexander var með líkfundarmálið í maganum í fjórtán ár.

„Ég hafði áhuga á því að skoða þennan fíkniefnaheim, hvernig hann væri á Íslandi. Það er alltaf verið að handtaka vitlaust fólk. Það er bara verið að handtaka fíklana sem eru fastir í þessum vef sem er búinn til af öðru fólki, fólki sem fjármagnar þessi fíkniefni,“ segir Ari og Tómas tekur undir það.

„Þetta er ákveðin spennumynd. Það er „action“ í gangi. Þetta er ekki típísk þannig mynd. Við vildum sýna mannlega þáttinn. Oft eru dópistar sýndir sem klikkaðar skepnur. Við vildum sýna frekar manneskjur sem lenda í þessum hræðilegu aðstæðum. Þetta byrjar með einhverri lygi sem vindur uppá sig og þetta fer allt í steik,“ segir hann.

Sá leikarann í draumi

Hinn eistneski Pääru Oja leikur manninn sem lést. Hann segist hafa undirbúið sig mjög vel fyrir hlutverkið.

„Ég talaði nokkrum sinnum við lækni um hvernig þetta gerðist allt saman. Hvað gerist þegar meltingarkerfið hættir að virka. Ég flaug til Íslands og svo voru æfingar í tvær vikur áður en við byrjuðum að taka upp.“

Myndin er tekin upp bæði á Íslandi og í Eistland og flaug Ari til Eistlands til að velja leikara í myndina. Valið stóð á milli nokkurra í hlutverk Pääru en það má segja að forlögin hafi valdið því að hann var ráðinn.

„Ég var á leiðinni heim til Íslands í flugvélinni og sofnaði. Þá dreymdi mig senu í myndinni þar sem karakterinn hans er nakinn, fullur af fíkniefnum eins og ólétt kona og með slöngur í rassinum og hann er að reyna að losa sig við fíkniefnin. Ég sá plakat af þessu í draumum mínum og var að tala við eistneska framleiðandann. Hún sagði að ég gæti aldrei gert bíómyndaplakat af manni í skítugri sturtu. Síðan sá ég andlit mannsins og það var Pääru. Þannig að ég hugsaði: Pääru er minn maður.“

Brenndur og sendur heim í pósti

Annar eistneskur leikari, Kaspar Velberg, fer með hlutverk í myndinni og er mikið lagt upp úr því að sýna uppruna þessara tveggja Eista.

„Það sorglegasta við þetta er að móðir drengsins sem raunverulega deyr, sem býr í Litháen, hún bað íslenska ríkið um að fá allavega líkamsleifar sonar síns svo hún gæti séð hann í síðasta sinn og grafið hann í heimalandi sínu. Þá var það ekki hægt. Íslensk stjórnvöld mátu það svo að þetta væri of dýrt þannig að hann var bara brenndur og sendur heim í pósti í krukku,“ segir Ari.

Eins og áður segir er Undir halastjörnu frumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum í dag, en heimsfrumsýningin fór fram í Suður-Kóreu fyrir stuttu. Nú tekur við eftirfylgni hjá aðstandendum myndarinnar og verður hún til að mynda frumsýnd í Tallinn í Eistlandi þann 18. október.

Sjá einnig: Undir Halastjörnu heimsfrumsýnd á stærstu kvikmyndahátíð Asíu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda