„Það vissi enginn af þessu. Ég ræddi ekki við vini mína eða fjölskyldu. Ég skammaðist mín, segir Sonja Einarsdóttir sem var í ofbeldissambandi í 18 ár. Ofbeldið var bæði andlegt og líkamlegt og átti sér margvíslegar birtingarmyndir. Hún hvetur einstaklinga í þessum aðstæðum til þess að hlusta á innsæið og láta vita af ofbeldinu.
Sonja er ein af þeim sem segja sögu sína í tengslum við herferðina Þekktu Rauðu ljósin. Herferðin er svar Kvennaathvarfsins og Bjarkarhlíðar við síaukinni eftirspurn ungs fólk eftir aðstoð vegna ofbeldis í nánum samböndum. Verkefnið var styrkt af Jafnréttissjóði Íslands.
Í tilkynningu segir:
„Umræðan um ofbeldi í nánum samböndum beinist oft að fólki sem hefur búið saman og ofbeldið átt sér stað innan veggja heimilisins en skortur er á efni sem beint er til fólks sem er að hefur nýhafið samband. Herferðin miðar að því að minna á að ofbeldi birtist smátt og smátt í samböndum, að ýmis viðvörunarmerki eru oft undanfari ofbeldisins Vitundarvakningin felst í stuttum myndböndum þar sem nokkrar hugrakkar konur sem stigið hafa út úr ofbeldissamböndum líta til baka og ræða viðvörunarljósin sem birtust í sambandinu þó þær hafi ekki séð þau fyrr en of seint.“
Sonja lýsir því hvernig það kviknaði á viðvörunarbjöllunum hjá henni í sambandinu þegar sambýlismaður hennar sýndi hegðun sem einkenndist af stöðugri reiði og pirringi yfir hinum ýmsu smámunum.
„Þegar hann snöggreiðist þá ræðst hann á mig, hann kemur bara askvaðandi, hlaupandi að mér. Ég næ að flýja inn í stofu, þetta byrjar í svefnhernerginu, hann lemur mig útum allan líkama, í andlit, í nef þannig að ég fann að það blæddi úr mér. Hann barði mig einnig með skaftpotti þannig að skaftið brotnaði af.“
Hún segir manninn oft hafa hent henni fáklæddri út á götu og að lokum, eitt kvöldið var mælirinn fullur. „Ég næ að grípa flíspeysu því ég var bara á nærbuxum og bol, og gemsann. Og þá var einhvern veginn botninum náð hjá mér. Þó ég hafi þráð að losna úr sambandinu í langan tíma. En þarna var komin endastöðin hjá mér. Bara hingað og ekki lengra. Það komu tveir lögreglubílar og ofbeldismaðurinn var fjarlægður.“
„Skýringin á því að ég hlustaði ekki á viðbörunarbjöllurnar er sú að ég gefst ekki upp. Ég labba ekki í burtu þó að á móti blási stundum,“ segir Sonja einnig í myndskeiðinu en sögunni lýkur ekki hér. „Áreitið heldur áfram. Ég er ekki laus við hann endanlega en ég er ekki hrædd við hann.“
Nánar um átakið á heimasíðunni Rauðu Ljósin.