Á héraðsfundi Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, sem haldinn var í Guðríðarkirkju þann 30. maí, var skorað á ríkisstjórnina að leiðrétta sóknargjöldin og gera upp „skuld sína við þjóðkirkjuna“ þar sem sóknargjöldin hefðu verið skert „gríðarlega“ frá árinu 2009. Þau eru núna 931 króna á mánuði fyrir hvern meðlim, en í áskoruninni er farið fram á að hún ætti að vera, „samkvæmt lögum“ 1556 krónur á meðlim. Frá þessu er greint á Vísi.
„Nú er svo komið, að ákveðnir söfnuðir virðast endanlega vera að komast í þrot fjárhagslega. Sumir söfnuðir hafa ekki getað sinnt brýnasta viðhaldi eigna og eru nú, nærri tíu árum eftir hrunið, að segja upp starfsfólki, lækka starfshlutfall og draga úr starfi,“
segir í fréttinni og því borið við að sóknargjaldið hafi aðeins hækkað um 59 kr. á mánuði frá 2008 eða 6,8% meðan vísitala neysluverðs hafi hins vegar hækkað um cirka 60,2% á sama tíma.
Þá er það sagt brýnt að viðræður ríkisins við kirkjuna um fjármál, verði leidd til lykta sem fyrst.
Reykjavíkurprófastsdæmi eystra er það fjölmennasta á landinu, með um 63 þúsund meðlimi. Mánaðarlega fær því prófastsdæmið um 58.6 milljónir frá sínum sóknarbörnum. Gangi krafa þeirra eftir um hækkun sóknargjalda, hækkar upphæðin í 98 milljónir á mánuði.
Heildarfjárheimild ríkisins til þjóðkirkjunnar fyrir árið 2018 er um 6.5 milljarðar.