fbpx
Mánudagur 19.maí 2025
Eyjan

Óþarfa bölsýni

Egill Helgason
Laugardaginn 9. júlí 2016 23:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður heyrir ýmsar bölsýnisraddir varðandi ferðamennsku á Íslandi – meðal annars þetta dálítið yfirlætislega viðtal þar sem því er spáð að Reykjavík verði full af tómum hótelum eftir tíu ár.

Ég hygg að þetta sé tóm vitleysa. Við erum á byrjunarreit í ferðamennskunni og það eru ýmsir örðugleikar – innviðirnir eru ónógir, við höfum ekki næg hótel til að taka á móti öllum ferðamönnunum, flugvöllurinn í Keflavík er orðinn of lítill, léleg tengsl milli innanlandsflugs og millilandaflugs eru vandamál og veldur því að ferðamenn dreifast síður um landið en hægt væri – og jú, einhvers staðar vantar klósett. Það er kvartað undan græðgi og háu verðlagi – jú, kannski er eitthvað til í því – en Ísland verður aldrei ódýr áfangastaður, ekki fremur en almennt er í norðurálfu. Við verðum aldrei Costa Blanca eða Kanarí.

En allt þetta er hægt að leysa. Og að eru að verða til alls konar skemmtilegar nýungar í ferðaþjónustunni. Meiri vetrarferðamennska. Siglingar meðfram ströndum. Á landsvæðum þar sem áður var ekki hægt að fá ætan bita, kannski í mesta lagi fitugan hamborgara eða kjötsúpu, spretta upp fjölbreyttir og góðir veitingastaðir. Þjóðfélagslega er kannski stærsta vandamálið hversu margir leigja út íbúðir sínar á Airbnb og hvernig það keyrir upp verð á leigumarkaði. En ferðamennskan skapar ótal störf og góðan hagvöxt.

Ísland er í raun rétt nýkomið á kort alþjóðlegrar ferðamennsku. Við þóttumst góð ef hingað kom hálf milljón ferðamannna á ári, nú er talan miklu hærri og á sjálfsagt eftir að hækka enn. Ástæðurnar eru nokkrar, mjög mikil umfjöllun um Ísland í erlendum fjölmiðlum, stóraukið framboð á flugi til landsins, og svo það sem er aðalaðdráttarafl landsins – það er hægt að komast út í tiltölulega ósnortna náttúru á örskömmum tíma.

Ekkert annað land í Evrópu býður upp á neitt viðlíka. Maður þarf ekki að fara nema korter frá aðalflugvellinum eða höfuðborginni – og sjá, maður er kominn á land sem hefur ekki verið stikað út, byggt á eða ræktað upp. Í viðtalinu talar maðurinn um að bráðum verði reist Disneyland við Reykjavík, en nei, við höfum Heiðmörk við Reykjavík, stórt friðland þar sem er yfirleitt mjög fátt fólk á ferli. Ferðamannafjöldinn nú er þó ekki nema 1,5 milljón á ári – það eru engin ósköp satt að segja. Til eyjarinnar Santorini sem er hérna rétt hjá mér í Grikklandi koma 2 milljónir ferðamanna árlega, hún er 90 ferkílómetrar.

Það sem hefur gerst í Reykjavík er að svæði miðborgarinnar – eða svæði með miðborgarstarfsemi – hefur stækkað mikið. Það er komið langt upp fyrir Hlemm, meðfram höfninni, út á Granda og Örfirisey og út að Eiðisgranda. Þetta er gerbreyting og hefur hleypt miklu lífi í bæinn sem blómstrar líkt og aldrei fyrr. Skólavörðuholt er einn aðalstaðurinn, það er ekki svo langt síðan að þar sást aldrei hræða. Við getum ekki miðað allt við Laugaveginn og þröngan blett í Kvosinni lengur, ekki fremur en Kaupmannahafnarbúar dæma borgina sína út frá Strikinu eða Lundúnabúar út frá Oxfordstræti.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Lögregla rúin trausti

Lögregla rúin trausti
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar sakar Jón um að tala niður til þjóðarinnar og Jón minnir á söguna um litlu gulu hænuna

Ragnar sakar Jón um að tala niður til þjóðarinnar og Jón minnir á söguna um litlu gulu hænuna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þurfti að stilla til friðar eftir háðsglósur á Alþingi þar sem þingmaður móðgaðist og meirihlutinn flissaði – „Bíddu, hvar hefurðu verið?“

Þurfti að stilla til friðar eftir háðsglósur á Alþingi þar sem þingmaður móðgaðist og meirihlutinn flissaði – „Bíddu, hvar hefurðu verið?“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að flensa afturendann

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að flensa afturendann