Ég hef ekki haft trú á því að Bandaríkjamenn kjósi forseta sem er kona – og heitir Clinton í þokkabót. Ég hef heldur ekki trúað að þeir kjósi mann sem er þeldökkur og heitir Hussein.
Þetta kann að vera að breytast. Með Obama virðist vera sleginn tónn sem minnir á æsku og hugsjónir – sem auðvelt er að hrífast með – og er afar ólíkur cynicismanum sem hefur verið ríkjandi hjá mönnum eins og Bush, Cheney, Rove og Rumsfeld.
Ímynd Bandaríkja með Obama sem forseta myndi breytast mikið. Bandaríkin myndu samt halda áfram að vera mesta herveldi í heimi, með her í Írak og Afganistan, stuðning við Ísrael, andstöðu við kjarnorkuvæðingu Írans. Stríðinu gegn hryðjuverkum yrði ekki hætt snögglega.
Þá er spurning hvernig þeir myndu bregðast við hvers alfa og omega í pólitík er andúð á Bandaríkjunum. Varla kæra þeir sig um að sitja uppi með ónýta heimsmynd?
En kannski eru þetta óþarfa vangaveltur. Ég ætla enn að vera svartsýnn og trúa því að hvorki Obama né Hillary eigi möguleika á að verða forseti.