Það var gaman að skoða Hagkaupsblaðið sem fylgdi Mogganum í gær.
Pálmi Jónsson, stofnandi Hagkaups, var mikill merkismaður og frumkvöðull í verslun á Íslandi. Hann barðist gegn einokun og alls kyns úreltum viðskiptaháttum.
Það er leitt að búðirnar skyldu síðar komast í hendurnar á mönnum sem kunnu ekki með að fara og notuðu þær til að byggja upp einokunarveldi.
Ýmislegt rifjast upp við að skoða blaðið.
Gamla Hagkaupsbúðin sem var í Lækjargötu, í húsi sem er nú horfið. Þar fengust hinir frægu Hagkaupssloppar.
Þegar ég var þrettán ára vann ég við að prenta myndir á boli í bílskúr í Blönduhlíðinni. Sá sem stóð fyrir þessu var mikill hollvinur minn, Friðrik Brekkan; hann var frumkvöðull í bolaprentun á Íslandi.
Síðan sentist ég á reiðhjóli niður í Hagkaup þar sem bolirnir voru seldir.
Vinsælastir voru bolir með broskalli.
Þá stoppaði strætó fyrir utan Hagkaup.
Nokkrum árum seinna var ég kominn í MR og var skotinn í stelpu sem tók alltaf strætó á þessum stað. Ég þorði eiginlega ekki að nálgast hana, en var stundum að væflast í kringum strætóskýlið – þótt það væri stutt fyrir mig að labba heim.
Annars er merkilegt að sjá þegar maður flettir blaðinu og sér gamlar auglýsingar frá Hagkaup að fjölskylda Pálma var í aðalhlutverki í auglýsingum fyrir búðirnar – nýtnin og sparsemin var svo mikil.