Það má segja að Jón Gnarr haldi stjórnmálakerfinu á Íslandi í gíslingu.
Meðan hann og flokkur hans njóta enn vinsælda þora gömlu stjórnmálaflokkarnir ekki að fara í kosningar.
Þeir óttast að svipað framboð gæti komið upp á landsvísu og feykt þeim burt af þingi – eins og gerðist í borginni.
Því ríkir fögnuður í gömlu flokkunum í hvert sinn sem Jón gerir skyssu – þess er beðið í ofvæni í Alþingishúsinu að hann verði óvinsæll.
Þá telja sitjandi þingmenn sig geta andað léttar.
Og þá geta þeir óáreittir haldið áfram skrípalátum eins og maður hefur fylgst með í þinginu þessa fáu daga sem eru liðnir síðan það kom aftur saman.
Því Jón er ekki einn um það að fíflast.