Sölvi Tryggvason skrifar um áhrif Tonys Blair á Samfylkinguna.
Ég hef áður bent á – og það er verðugt rannsóknarefni – hvernig hugmyndastraumar sem berast hingað koma mestanpart frá Bretlandi á löngu tímabili.
Thatcherisminn var tekinn upp hrár af ungum mönnum í Sjálfstæðisflokknum – þar voru fremstir í flokki Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Davíð Oddsson. Um leið er eins og rofni öll tengsl við hægrimenn á Norðurlöndunum og í Evrópu. Fram að þessu hafði Sjálfstæðisflokkurinn eiginlega frekar átt samleið með flokkum Kristilegra demókrata í Evrópu.
Þegar Blair kemst til valda í Bretlandi liggur straumurinn af íslenskum krötum þangað. Sjálf Ingibjörg Sólrún fer í LSE til að nema fræðin hjá Anthony Giddens. Áður hafði Alþýðuflokkurinn gamli horft til Norðurlandanna og Þýskalands þar sem var vagga sósíaldemókratíunnar.
London var líkt og önnur höfuðborg Íslands um tíma. Hún er það tæplega lengur – eftir hrun útrásarinnar. Vegna tungumálsins liggja vissulega miklir menningarlegir og pólitískir straumar frá Bretlandi til Íslands – en breskt samfélag með sínum ójöfnuði er ekki endilega góð fyrirmynd fyrir Ísland.