Málefni innflytjenda hafa verið í miklum ólestri hér – síðast kom upp mál brasilískrar konu sem hafði verið gift Íslendingi, skildi við hann og fær þá ekki lengur að vinna á frístundaheimili. Því miður er alltof algengt að erlendu fólki sem hér hefur búsetu sé sýnd óvirðing og jafnvel valdníðsla.
Þess vegna hljóta að vera miklar vonir bundnar við Ögmund Jónasson í hlutverki dómsmálaherra. Lengi vel hefur helst enginn mátt gegna þessu djobbi nema hann sé í Sjálfstæðisflokknum og útskrifaður úr lögfræðinni vestur á Melum. Ögmundur ætti að koma með ný viðhorf inn í ráðuneytið. Nánustu stuðningsmenn hans gera ábyggilega ráð fyrir því.
Það þarf til dæmis að taka til hendinni í þeirri leiðu stofnun Útlendingaeftirlitinu – og svo eiga Íslendingar að geta tekið miklu betur á móti flóttamönnum.
Sumir verða þó kannski áhyggjufullir yfir þessu, eins og til dæmis einn aðalmaðurinn á Moggablogginu sem gjarnan er vitnað til í Staksteinum og óttast að múslimar verði komnir í meirihluta á Íslandi innan tíðar, sérstaklega þó ef við göngum i ESB.