Það er makalaust að sjá hversu erfitt stjórnmálaflokkarnir eiga uppdráttar í kosningabaráttuni í Reykjavík. Fylgi Besta flokksins skýrist reyndar aðallega af frammistöðu þeirra á landsvísu, algjöru vantrausti á flokkunum.
En það eru samt ákveðnir hlutir í baráttunni í Reykjavík sem hafa áhrif.
Dagur B. Eggertsson er ekki að ná til kjósenda. Hann setur á alltof langar og þvælnar ræður; fólk verður hálfringlað að hlusta á hann.
Sóley Tómasdóttir hefur sýnt sig að vera atkvæðafæla. Það er bara svo einfalt. Hún hefur of einstrengingslega tilhöfðun – og hefur misst út úr sér hluti sem hafa skaðað framboð VG verulega.
Það er reynt að segja kjósendum að Hanna Birna Kristjánsdóttir sé utan og ofan við pólitískar þrætur. Staðreyndin er samt sú að hún er skilgetið afkvæmi flokksskrifstofu Sjálfstæðisflokksins, er alin upp þar undir handarjaðri Kjartans Gunnarssonar. Hún er flokksmanneskja í húð og hár.
Framsóknarflokkurinn stendur frammi fyrir því að eiga ekki mann í borgarstjórn í Reykjavík í fyrsta sinn í langan tíma. Það hefur minnst með oddvita flokksins, Einar Skúlason, að gera, heldur helgast aðallega af því mikla spillingarorði sem hefur lengi farið af flokknum í Reykjavík.
Í Frjálslynda flokknum er ágætt fólk í framboði, en nafn flokksins er nánast ónýtt eftir langvarandi innbyrðis átök.
Reykjavíkurframboðið einbínir aðallega á Reykjavíkurflugvöll. En það er mál sem er einfaldlega ekki á dagskrá þessa dagana. Fólk hefur um annað að hugsa.
Og Besti flokkurinn, hann virðist enn vera á sinni miklu siglingu. Breytir það einhverju þetta viðtal við Jón Gnarr sem birtist í Grapevine og Illugi snaraði og setti á vefinn hjá sér? Jón Gnarr segir ýmsa hluti sem virka óþægilegir, grínið hjá honum hefur náttúrlega alltaf verið úti á ystu nöf, jafnvel við mörk brjálseminnar. Það er ekki alltaf auðvelt að sjá hver hann er í raun og veru.
Nú skilst manni að Jón útiloki samstarf við Hönnu Birnu í viðtali sem birtist á ÍNN á morgun með orðunum: „Nei, nei, nei, það verður að koma eitthvað nýtt!“
Það er þá spurning hvernig það verður í framkvæmd – ein útfærslan er náttúrlega borgarstjórn með einhvers konar þjóðstjórnarmynstri og með borgarstjóra sem er einfaldlega ráðinn til verksins.
Verklagið í borgarstjórninni gæti þurft að breytast ansi mikið – gamall borgarstjórnarmaður sem ég hitti um helgina sagði að kannski hefðu menn bara gott af því.